Innlent

Nefbrutu karlmann á Skólavörðustíg

Kjartan Kjartansson skrifar
Árásarmennirnir voru farnir af vettvangi þegar lögregluþjónar komu á staðinn en þeir eru sagðir kunnir lögreglu.
Árásarmennirnir voru farnir af vettvangi þegar lögregluþjónar komu á staðinn en þeir eru sagðir kunnir lögreglu. Vísir/Vilhelm

Karlmaður er talinn nefbrotinn eftir að tveir menn réðust á hann á Skólavörðustíg í Reykjavík skömmu fyrir klukkan eitt í nótt. Árásarmennirnir voru farnir af vettvangi þegar lögreglu bar að garði en þeir eru sagðir kunnir lögreglunni.

Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að maðurinn sem varð fyrir árásinni hafi verið fluttur á bráðamóttöku Landspítalans eftir árásina. Tilkynnt var um árásina þegar klukkuna vantaði níu mínútur í eitt í nótt.

Rúmri klukkustund síðar var tilkynnt um umferðaróhapp í Fossvogi. Þar hafði verið ekið á brunahana og hann brotinn. Mikið vatnsrennsli var um götur og göngustíga og var óttast um skemmdir á húsum. Ökumaðurinn yfirgaf vettvang en var stöðvaður skömmu síðar. Hann er grunaður um ölvun við akstur og var vistaður í fangageymslu lögreglu.

Slökkviliðsmenn og starfsmenn Orkuveitunnar komu á vettvang til að loka fyrir vatnið og reyna að forða skemmdum á húsum og íbúðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×