Innlent

Óvissustig enn í gildi vegna snjóflóðahættu á Vestfjörðum; Flughált víða um land

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Varað er við flughálku víða á landinu. Myndin er úr safni.
Varað er við flughálku víða á landinu. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Óvissustig er í gildi vegna snjóflóðahættu á Vestfjörðum þar sem flóð hafa ekki þegar fallið. Líkur eru taldar á vatnavöxtum á sunnan- og vestanverðu landinu í dag. Frystir í nótt og von á næstu lægð á miðvikudaginn.

Líkur eru taldar á töluverðum vatnavöxtum á sunnan- og vestanverðu landinu í dag og á morgun eftir sunnan hvassviðri eða storm sem gekk yfir landið í nótt. Varað er við því að flughálka geti myndast þegar blotnar á svelli eða þjöppuðum snjó.

„Í dag þá verður suðvestanátt á öllu landinu, hún verður víðast hvar 13-20 m/s en getur víðast hvar farið upp í 25 á stöku stað vegna landslags. Það verða skúrir um vestanvert landið en úrkomulítið Norðaustan og austanlands,“ sagði Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Von er á að veðrið verði verst á Vestfjörðum og Norðurlandinu.

„Það kólnar í nótt og frystir seinni part nætur og frost víðast hvar á landinu á morgun,“ sagði Eiríkur.

Óvissustigi vegna snjóflóðahættu hefur verið lýst yfir á norðanverðum Vestfjörðum. Í gærkvöld byrjaði að hlýna verulega og upp úr miðnætti tók að rigna. Búast má við því að snjóflóð geti fallið úr óhlupnum farvegum vegna hitabreytinga og þegar fer að rigna niður í snjóþekjuna. Ekki er talin hætta á flóðum þar sem snjóflóð féllu í liðinni viku.

„Það er óvissustig í gildi eins og er en snjóflóðadeildin fylgist vel með því máli, framvindu þar,“ sagði Eiríkur.

Appelsínugular og gular viðvaranir eru í gildi víðast hvar á landinu.

„Það er von á næstu lægð með hlýindi og rigningu á miðvikudaginn. Lítur út fyrir að það verði suðvestanátt og mikil hlýindi, allt upp í 12 stiga hita og rigning um mest allt land,“ sagði Eiríkur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×