Innlent

Varað við flughálku víða um land

Kjartan Kjartansson skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Vísir/Egill

Flughált er nú á vegum í flestöllum landshlutum og hvasst. Gular og appelsínugular veðurviðvaranir eru áfram í gildi vegna hvassviðris fram eftir degi og fram á kvöld og líkur taldar á vatnavöxtum á landinu sunnan- og vestanverðu.

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að þrátt fyrir að vegir séu greiðfærir að mestu á Suðvestur- og Suðurlandi sé vetrarfærð í flestum öðrum landslhutum.

Á Vestfjörðum er flughált á flestum vegum. Búið er að opna Flateyrarveg eftir snjóflóðin sem féllu þar í síðustu viku en þar er einnig sögð mikil hálka. Súðavíkurhlíð, sem var lokað um tíma í gær, er einnig opin. Steingrímsfjarðarheiði er aftur á móti ófær vegna flughálku og hvassviðris.

Á Norðurlandi er flughált á Þverárfjallsvegi og mjög hvasst. Annars er hálka eða hálkublettir sagðir á vegum. Á Norðausturlandi er flughált frá Lóni í Kópasker, eins á Hófaskarði, Hólasandi, í Raufarhöfn og á Brekknaheiði.

Sömu aðstæður eru sagðir á Upphéraðsvegi í Fellabæ og frá Egilsstöðum að Eiðum á Austurlandi. Á Suðurlandi er flughált á Sólheimavegi og Skálholtsvegi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×