Maður sem var særður í árás á heimili rabbína í Bandaríkjunum þann 29. desember síðastliðinn er talinn hafa hlotið varanlegan heilaskaða og gæti verið lamaður að hluta það sem eftir er ævinnar. Þetta segir fjölskylda mannsins í yfirlýsingu.
Ráðist var á heimili rabbína í bænum Monsey, norður af New York þann 29. desember síðastliðinn, þar sem gestir höfðu safnast saman til að fagna ljósahátíðinni Hanukkah. Árásarmaðurinn særði fimm manns með sveðju sem hann notaði í árásinni.
Yfirlýsing fjölskyldu Josef Neumann var birt af nefnd um málefni strangtrúaðra gyðinga auk mjög grafískrar ljósmyndar sem sýnir áverkana á höfði Neumann. Á myndinni sést Neumann í alvarlegu ástandi í sjúkrarúmi með miklar bólgur í andliti.
Sveðjan, sem notuð var í árásinni er 46 cm löng, og fór hún í gegn um höfuðkúpu Neumann. Hægri handleggur Nuemann er líka illa farinn eftir árásina.
Árásin hefur verið skilgreind sem hatursglæpur og hafa gyðingar víðs vegar um heiminn deilt eigin upplifun á gyðingafordómum á samfélagsmiðlum með því að nota myllumerkið #MeJew.
Maðurinn sem grunaður er um glæpinn heitir Grafton Thomas og er 37 ára gamall. Hann hefur verið ákærður fyrir glæpinn. Hann hefur neitað sök í öllum ákæruliðum.
