Innlent

Tónskáldið Hildur hlaut bjartsýnisverðlaunin

Kjartan Kjartansson skrifar
Hildur Guðnadóttir með Emmy-verðlaunin sem hún vann í september fyrir tónlistina í sjónvarpsþáttunum um Tsjernóbíl.
Hildur Guðnadóttir með Emmy-verðlaunin sem hún vann í september fyrir tónlistina í sjónvarpsþáttunum um Tsjernóbíl. Vísir/EPA

Hildur Guðnadóttir, tónskáld og sellóleikari, hlaut Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2019 sem voru afhent á Kjarvalsstöðum í dag. Hún vann til Emmy-verðlauna fyrir tónlist sína í sjónvarpsþáttunum um Tsjernóbílslysið í fyrra og er tilnefnd til Golden Globe-verðlauna fyrir tónlistina í kvikmyndinni „Jókerinn“. 

Bjartsýnisverðlaunin eru menningarverðlaun sem hafa verið afhent árlega frá árinu 1981. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og vernari verðlaunanna, afhenti verðlaunin, áletraðan grip úr áli og eina milljón króna í verðlaunafé.

Í tilkynningu um verðlaunin kemur fram að Hildur er tónskáld og sellóleikari en hefur einnig sungið og starfað sem kórstjóri. Hildur hefur leikið í fjölmörgum hljómsveitum og spannar tónlistin nánast allt svið tónlistar. Hildur lauk námi í Listaháskóla Íslands í tónsmíði og nýmiðlun. Hún fór síðan í framhaldsnám í tónsmíðum við Universität der Künste í Berlín.

Hildur hefur sjálf gefið út fjórar hljómplötur sem allar hlutu allar góðar viðtökur. Þá hefur hún komið að gerð yfir tuttugu hljómplatna í samstarfi við annað tónlistarfólk. Sem tónskáld hefur Hildur samið tónlist fyrir leikhús, dansverk, sjónvarp og kvikmyndir. Að undanförnu hefur hún einkum einbeitt sér að tónlist fyrir sjónvarp og kvikmyndir og hlotið mikið lof fyrir. Sérstaklega hefur tónlist Hildar í sjónvarpsþáttunum „Tsjernóbíl“ og kvikmyndinni „Jókerinn“ hlotið mikið lof.

Í dómnefnd Íslensku bjartsýnisverðlaunanna eru Þórunn Sigurðardóttir, Magnús Geir Þórðarson, Rannveig Rist og Örnólfur Thorsson.


Tengdar fréttir

Hildur vann til Emmy-verðlauna

Hildur Guðnadóttir vann í nótt til sinna fyrstu Emmy-verðlauna fyrir tónlist sína í þáttunum Tsjernobyl.

Hildur tilnefnd til Grammy-verðlauna

Hildur Guðnadóttir tónskáld hlaut í dag tilnefningu til Grammy-verðlauna fyrir tónlist sína í þáttunum Chernobyl.

Hildur tilnefnd til Golden Globe

Hildur Guðnadóttir sellóleikari og tónskáld heldur áfram að slá í gegn á erlendum vettvangi en í dag var hún tilnefnd til hinna virtu kvikmyndaverðlauna Golden Globe fyrir tónlistina í kvikmyndinni Jókerinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×