Enski boltinn

Hetja Liverpool í gær er alvöru Scouser og markið hans minnir marga á byrjun Rooney

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Curtis Jones fagnar markiinu sínu í gær.
Curtis Jones fagnar markiinu sínu í gær. Getty/Clive Brunskill

Hver er þessi Curtis Jones sem tryggði Liverpool 1-0 sigur á Everton í enska bikarnum í gær?

Fyrsta mark Curtis Jones fyrir æskuklúbbinn sinn var sigurmark á móti nágrönnunum í Everton. Það er erfitt að byrja betur hjá Liverpoolo og ekki síst þegar markið þitt er jafn glæsilegt og raun ber vitni.

Knattspyrnusérfræðingar voru strax búnir að finna líkindi með þessari innkomu Curtis Jones og þeirri þegar Wayne Rooney skoraði sitt fyrsta mark fyrir Everton á móti Arsenal á sínum tíma.

Curtis Jones var aðeins átján ára og 40 daga gamall í gær og er yngsti markaskorari Liverpool í leik á móti Everton síðan að Robbie Fowler skoraði í Merseyside derby leiknum árið 1994.



Wayne Rooney var uppalinn hjá Everton og stimplaði sig einn í enska boltann með frábæru marki á móti Arsenal árið 2002. Með markinu endaði hann 30 leikja sigurgöngu Arsenal sem var þá allra besta lið deildarinnar.

„Mannstu eftir fyrsta marki Wayne Rooney fyrir Everton? Við erum með sérstakan strák hérna,“ sagði Dion Dublin, fyrrum framherji í ensku úrvalsdeildinni, í þætti á BBC Radio 5 Live.

„Ég verð að taka hattinn ofan fyrir þessum strák. Þvílík afgreiðsla og þvílíkt fyrsta mark fyrir sinn æskuklúbb,“ bætti Dublin við.



Varalið Liverpool tókst að slá út Everton og biðin eftir sigri á Anfield lengist því enn. Curtis Jones var ekki einu sinni fæddur þeger Everton vann síðst á Anfield.

Alan Shearer var ánægður með viðtal við strákinn eftir leikinn þar sem Curtis Jones sagðist vera pirraður yfir því að fá ekki fleiri tækifæri. Hann nýtti tækifærið sitt í gær.

Curtis Jones fæddist í Toxteth hverfinu sem er í miðri Liverpool borg. Hann varð fyrst leikmaður níu ára liðsins og hefur síðan spilað með öllum yngri liðum Liverpool.



Jones skrifaði undir fyrsta atvinnumannasamning sinn við Liverpool árið 2018 og kom nokkuð við sögu á undirbúningstímabilinu fyrir 2018-19. Jürgen Klopp talaði þá um það í viðtölum að Curtis Jones væri alvöru Scouser en það er gælunafn mann frá Liverpool svæðinu.

Jones fékk sitt fyrsta tækifæri með aðalliði Liverpool á sama tíma fyrir ári síðan og var þá í byrjunarliðinu í bikartapi á móti Úlfunum. Curtis Jones hefur ekki fengið mörg tækifæri síðan þá en skrifaði undir langtímasamning við Liverpool í ágúst síðastliðnum.

Hann var síðan valinn maður leiksins í sigri á MK Dons í enska deildabikarnum og skoraði líka úr vítaspyrnu í vítakeppninni á móti Arsenal í sömu keppni.

Fyrsti leikur hans í ensku úrvalsdeildinni kom á móti Bournemouth í desember og hann skoraði síðan fyrsta markið með eftirminnilegum hætti í gær.

Hér fyrir neðan má sjá sigurmarkið hjá Curtis Jones í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×