Fótbolti

Fyrsti leikur Zlatan Ibrahimovic með AC Milan í beinni í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic með AC Milan treyjuna sína en hann spilar í númer 21 út þetta tímabil
Zlatan Ibrahimovic með AC Milan treyjuna sína en hann spilar í númer 21 út þetta tímabil Mynd/Twitter/@acmilan

Sænski framherjinn Zlatan Ibrahimovic gæti spilað sinn fyrsta leik með AC Milan í dag þegar liðið mætir Sampdoria.

Hinn 38 ára gamla lifandi goðsögn skrifaði undir sex mánaða samning við AC Milan eftir að hann yfirgaf bandaríska félagið Los Angeles Galaxy. Zlatan er að snúa aftur til félagsins þar sem hann spilaði áður á árunum 2010 til 2012.

Zlatan Ibrahimovic hefur alls skorað 122 mörk í Seríu A á Ítalíu fyrir Internazionale Milan, Juventus og AC Milan þar af 42 mörk í 61 leik með AC Milan. Zlatan varð ítalskur meistari með AC Milan vorið 2011 en nú eru breyttir tímar og liðið er aðeins í ellefta sæti deildarinnar.



Þegar Zlatan lék síðast með AC Milan tímabilið 2011-12 þá skoraði hann 28 mörk og gaf 8 stoðsendingar í 32 leikjum. Hann skoraði þá 13 mörk í síðustu 13 deildarleikjum tímabilsins.

Zlatan Ibrahimovic er í leikmannahópi Stefano Pioli fyrir leikinn í dag en hann skoraði í æfingarleik með AC Milan í 9-0 sigri á móti neðrideildarliðinu Rhodense á föstudaginn.

Leikurinn fer fram á óvenjulegum tíma á mánudegi. Þrettándinn er nefnilega frídagur á Ítalíu og alls eru sex leikir í ítölsku deildinni í dag. Fjórir þeirra eru í beinni þar á meðal leikur AC Milan og Sampdoria sem hefst klukkan 14.00 og verður sýndur á Stöð 2 Sport 2.

Leikir Bologna-Fiorentina (S2 Sport kl. 11.30), Juventus-Cagliari (S2 Sport kl. 14.00) og Napoli-Inter (S2 Sport 3 kl.19.45) eru einnig sýndir í beinni útsendingu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×