Fótbolti

Markvörðurinn sem fékk á sig eitt frægasta mark fótboltasögunnar er látinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hans Tilkowski reynir að verja skot Geoff Hurst í úrslitaleik HM árið 1966. Boltinn fór í slána og niður. Línuvörðurinn dæmdi hann inni.
Hans Tilkowski reynir að verja skot Geoff Hurst í úrslitaleik HM árið 1966. Boltinn fór í slána og niður. Línuvörðurinn dæmdi hann inni. Getty/Tony Triolo

Hans Tilkowski, fyrrum markvörður vestur-þýska landsliðsins í knattspyrnu lést í gær eftir langa baráttu við veikindi. Hann var 84 ára gamall.

Hans Tilkowski er kannski þekktastur fyrir að hafa spilað í marki Vestur-Þjóðverja í úrslitaleik HM á Wembley árið 1966.

Þar skoraði Geoff Hurst þrennu í úrslitaleiknum en eitt markanna er eitt frægasta mark fótboltasögunnar.

Hurst átti þá skot í slánna og niður í stöðunni 2-2 í framlengingu en það hefur aldrei verið sannað eða afsannað hvort boltinn hafi farið inn fyrir línuna. Línuvörðurinn Tofiq Bahramov dæmdi hins vegar mark og Englendingar unnu 4-2.

Geoff Hurst minntist Hans Tilkowski í færslu á Twitter eins og sjá má hér fyrir neðan.



Þetta var 38. landsleikur Hans Tilkowski en hann spilaði aðeins einn landsleik í viðbót og kom hann í 6-0 sigri á Albaníu í apríl árið eftir. Tilkowski var elsti leikmaður þýska landsliðsins í þessum úrslitaleik þá 31 árs.

Hans Tilkowski spilaði allan sinn feril í Vestur-Þýskalandi með liðum Westfalia Herne, Borussia Dortmund og Eintracht Frankfurt. Hann varð Evrópumeistari bikarhafa með Dortmund vorið 1966 og þýskur bikarmeistari árið á undan.

Hans Tilkowski reyndi líka fyrir sér þjálfari og stýrði liðum eins og Nürnberg, Werder Bremen og AEK Aþena. Hann hætti þjálfun árið 1981.

Martin Peters sem skoraði líka hjá Hans Tilkowski í úrslitaleiknum á HM 1966 féll 21. desember síðastliðinn.

Einn af 39 landsleikjum Hans Tilkowski kom á Laugardalsvelli þegar Vestur-Þýskaland vann 5-0 sigur á íslenska landsliðinu 3. ágúst 1960.

Það má sjá þrennuna hans Geoff Hurst hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×