Man. City skrefi nær Wembl­ey eftir magnaðan fyrri hálf­leik á Old Traf­ford

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mahrez fagnar en Phil Jones er svekktur.
Mahrez fagnar en Phil Jones er svekktur. vísir/getty

Manchester City er með pálmann í höndunum eftir 3-1 sigur á grönnum sínum í United í fyrri leik liðanna í undanúrslitaleik deildarbikarsins.

Liðin mættust á Old Trafford í kvöld en rétt rúmlega mánuður er síðan United hafði betur gegn City á Etihad leikvanginum.

Það var þó allt annað uppi á teningnum í kvöld. Bernardo Silva kom City yfir á 17. mínútu með frábæru marki. Hann lék boltanum inn á völlinn og lét vaða fyrir utan teig. Boltinn söng í horninu og óverjandi fyrir David de Gea.

Riyad Mahrez tvöfaldaði forystuna á 33. mínútu. Bernardo Silva fékk boltann á miðjunni og stakk honum inn fyrir vörnina á Mahrez sem lék á De Gea og skoraði.

Veislu City var ekki lokið í fyrri hálfleik því á 39. mínútu kom þriðja markið. Kevin De Bruyne for þá illa með Phil Jones en De Gea varði frá honum skotið. Hann varði það þó beint í Andreas Pereira og í netið.







3-0 í hálfleik og algjör einstefna hjá gestunum sem hefðu getað verið meira en þremur mörkum yfir í hálfleik.

Leikurinn róaðist aðeins í síðari hálfleik og United náði að minnka muninn með marki frá Marcus Rashford eftir laglega skyndisókn. Lokatölur 3-1.

Liðin mætast aftur í næstu viku, þá á heimavelli City, en liðið sem fer í úrslitaleikinn mætir annað hvort Leicester eða Aston Villa í úrslitaleiknum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira