Fótbolti

Steven Gerrard fékk góð ráð frá Klopp | Myndband

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gerrard á hliðarlínunni í leiknum gegn Bayer Leverkusen í Evrópudeildinni
Gerrard á hliðarlínunni í leiknum gegn Bayer Leverkusen í Evrópudeildinni Alan Harvey/SNS Group/Getty Images

Liverpool goðsögnin Steven Gerrard var í viðtali við opinbera vefsíðu Evrópudeildarinnar en lið hans Rangers, frá Glasgow í Skotlandi, er komið alla leið í 16-liða úrslit hennar. Liðið tapaði fyrri leik sínum gegn Bayer Leverkusen 3-1 á heimavelli en óljóst er hvenær síðari leikurinn fer fram. 

Í viðtalinu sagði Gerrard að besta ráðið sem hann hefði fengið hefði komið frá Jür­gen Klopp, núverandi þjálfara Liverpool.

„Ekki fara inn í þjálfun sem leikmaðurinn Steven Gerrard. Farðu aftur í grunninn, prófaðu hluti og gerðu mistök,“ á Klopp að hafa sagt við Gerrard.

„Taktu áhættur og allt sem því fylgir áður en þú mætir fyrir framan tugi þúsunda áhorfenda, komdu þér í betri stöðu áður en það kemur að því. Ég hef séð fullt af knattspyrnumönnum mæta með ekkert nema nafnið sitt og það endar nær aldrei vel.“

Gerrard hefur sagt að þetta sé besta ráð sem hann hefur fengið. Hann segist hafa gert mistök sem knattspyrnustjóri Rangers en hann hefur lært af þeim og er því betri stjóri í dag.

Þessi fyrrum fyrirliði Liverpool er á öðru tímabili sínu sem stjóri Rangers eftir að hafa tekið við í apríl 2018. Tókst honum að stýra Rangers til síns fyrsta sigur á erkifjendunum í Glasgow Celtic síðan 2012 á sínu fyrsta tímabili. 

Áður en hann tók við Rangers þjálfaði hann U17 ára lið Liverpool í eitt tímabil. Margur Liverpool stuðningsmaðurinn telur að Gerrard snúi aftur til félagsins þegar Klopp ákveður að kalla þetta gott.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×