Fótbolti

Kenndi slæmum nætur­svefni og flug­eldum um tapið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Okan á hliðarlínunni í gær.
Okan á hliðarlínunni í gær. vísir/getty

Okan Buruk, þjálfari tyrknesku meistaranna í Istanbul Basaksehir, segir að slæmur nætursvefn og flugeldar fyrir utan hótel þeirra hafi ekki hjálpað til í leiknum í gær.

Meistararnir eru úr leik í Evrópudeildinni eftir 3-0 tap gegn FCK í síðari leik 16-liða úrslita Evrópudeildarinnar en þeir unnu fyrri leikinn 1-0 á heimavelli.

Stuðningsmenn FCK voru mættir fyrir utan hótel tyrkneska félagsins í fyrrinótt, nóttina fyrir leikinn, og skutu upp flugeldum og reyndu að halda fyrir þeim vöku.

Ef marka má blaðamannafundinn eftir leikinn í gær má ætla að þetta hafi gengið upp.

„Ég vil gjarnan segja frá þeim flugeldum sem voru sprengdir fyrir utan hótelið okkar í nótt. Klukkan korter yfir eitt og svo hálf þrjú. Þetta hafði áhrif á mig, leikmennina og aðra gesti á hótelinu,“ sagði Okan.

„Við sýndum FCK mestu gestrisni í Istanbul og ég hafði ætlast til þess að FCK myndi gera það sama. Þetta er ekki félaginu að kenna en fólkið sem gerði þetta gengur enn laust, eftir því sem ég best veit. Lögreglan í Kaupmannahöfn hefur ekki gert nóg.“

„Ég hef spilað marga leiki í Evrópu og ég hef aldrei upplifað eitthvað í líkingu við þetta. Þetta er siðmenntað samfélag hérna en þetta er vandræðalegt fyrir Kaupmannahöfn,“ sagði Okan foxillur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×