Fótbolti

Gengið framhjá Cristiano Ronaldo í valinu á mikilvægasta leikmanni Seríu A

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paulo Dybala og Cristiano Ronaldo í leik með Juventus á móti Lazio á tímabilinu.
Paulo Dybala og Cristiano Ronaldo í leik með Juventus á móti Lazio á tímabilinu. Getty/Chris Ricco

Paulo Dybala, liðsfélagi Cristiano Ronaldo hjá Juventus, var í dag valinn mikilvægasti leikmaður ítölsku deildarinnar á þessu tímabili.

Sería A verðlaunaði í dag þá leikmenn sem sköruðu fram úr á nýloknu tímabili og það kemur kannski mörgum á óvart að þar var alveg gengið framhjá Cristiano Ronaldo.

Framlag Paulo Dybala til Juventus var talið vera mikilvægara en það sem Portúgalinn skilaði á leiktíðinni. Juventus varð ítalskur meistari níunda árið í röð.

Cristiano Ronaldo fékk engin verðlaun að þessu sinni þrátt fyrir að hafa verið með 31 mark í 33 leikjum á leiktíðinni. Ciro Immobile hjá Lazio var valinn besti sóknarmaðurinn í deildinni.

Paulo Dybala var með tuttugu færri mörk en Ronaldo í Seríu A en gaf fimm fleiri stoðsendingar. Dybala endaði með 11 mörk og 11 stoðsendingar í 33 leikjum.

Juventus átti líka besta markvörðinn sem var Pólverjinn Wojciech Szczesny.

Verðlaunin fyrir Seríu A tímabilið 2019-20:

  • Besti markvörður: Wojciech Szczesny (Juventus)
  • Besti varnarmaður: Stefan De Vrij (Inter)
  • Besti miðjumaður: Alejandro Gomez (Atalanta)
  • Besti sóknarmaður: Ciro Immobile (Lazio)
  • Besti ungi leikmaður: Dejan Kulusevski (Parma)
  • Mikilvægasti leikmaður: Paulo Dybala (Juventus)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×