Fótbolti

Með dólgslæti á sjúkrahúsi

Sindri Sverrisson skrifar
Marcelo Brozovic hefur verið leikmaður Inter frá árinu 2015.
Marcelo Brozovic hefur verið leikmaður Inter frá árinu 2015. VÍSIR/GETTY

Króatíski landsliðsmaðurinn Marcelo Brozovic, leikmaður Inter á Ítalíu, lét öllum illum látum þegar sjúkrahússtarfsfólk neitaði að hleypa vini hans fram fyrir röð.

Brozovic, sem var undir áhrifum áfengis, mun hafa verið mjög æstur og ákveðinn í að sjá til þess að vinur sinn, sem hafði meiðst lítillega á fæti, kæmist fram fyrir sjúklinga sem glímdu við stærri vandamál. Frá þessu greinir ítalska fréttaveitan ANSA.

Brozovic róaðist ekki fyrr en að lögregla mætti á svæðið og varaði hann við því að hann gæti átt yfir höfði sér refsingu ef hann léti ekki af hegðun sinni. Þessi 27 ára gamli knattspyrnumaður mun síðar hafa beðið lækna og aðra sem hann angraði afsökunar.

Brozovic var fyrr í þessum mánuði sektaður um 100 þúsund evrur af Inter eftir að hann varð uppvís að því að aka undir áhrifum áfengis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×