Erlent

Sjö börn fæddust andvana vegna manneklu

Kjartan Kjartansson skrifar
Simbabve glímir ekki aðeins við kórónuveirufaraldur heldur einnig miklar efnahagsþrengingar. Hjúkrunarfræðingar eru í verkfalli til að mótmæla skorti á hlífðarbúnaði og ríkisstjórnin er sökuð um spillingu við opinber innkaup á honum.
Simbabve glímir ekki aðeins við kórónuveirufaraldur heldur einnig miklar efnahagsþrengingar. Hjúkrunarfræðingar eru í verkfalli til að mótmæla skorti á hlífðarbúnaði og ríkisstjórnin er sökuð um spillingu við opinber innkaup á honum. Vísir/EPA

Mannekla er talin ástæða þess að sjö börn fæddust andvana á sjúkrahúsi í Harare, höfuðborg Simbabve á mánudagskvöld. Hjúkrunarfræðingar eru nú í verkfalli til að mótmæli skorti á nauðsynlegum hlífðarbúnaði gegn kórónuveirunni.

Læknar sem breska ríkisútvarpið BBC ræddi við segja að átta keisaraskurðir hafi verið gerðir á mánudagskvöld en sjö börn hafi fæðst andvana. Of seint hafi verið gripið inn í hjá mæðrum sem áttu við erfiðleika að stríða.

Þeir segja ástandið á tveimur helstu sjúkrahúsum Harare alvarlegt þar sem aðeins örfáir læknar og hjúkrunarfræðingar séu á vakt vegna verkfallsins. Einn þeirra telur andlát nýburanna aðeins „toppinn á ísjakanum“.

„Þetta eru ekki einangruð atvik. Þetta endurtekur sig á hverjum degi og það eina sem við getum gert er að horfa á þau deyja. Þetta eru pyntingar fyrir fjölskyldurnar og fyrir unga lækna,“ segir hann.

Minni heilsugæslustöðvar eru einnig sagðar glíma við manneklu og sumum hafi hreinlega verið lokað vegna ástandsins. Því leiti ófrískar konur enn frekar á sjúrahúsinu þar sem fæðingardeildir eru yfirfullar.

Þá er alvarlegur skortur á hlífðarbúnaði fyrir heilbrigðisstarfsfólk, lyfjum við meðgöngukrampa og blóði til að bæta upp fyrir blæðingar við barnsburð. Samtök fæðingar- og kvensjúkdómalækna í Simbabve lýsa ástandinu sem „alvarlegur“ og „meira en ægilegu“.

Ólga ríkir í landinu þar sem óðaverðbólga leggst ofan á erfiðleika vegna kórónuveirufaraldursins. Meiriháttar hneyksli í kringum búnað vegna faraldursins skók Simbabve nýlega. Heilbrigðisráðherrann var rekinn eftir að ásakanir komu fram um að svik hafi verið í tafli við opinber innkaup á búnaði á uppsprengdu verði. Mótmæli hafa verið boðuð gegn ríkisstjórn Zanu-PF, stjórnarflokknum sem hefur stýrt landinu frá sjálfstæði, á föstudag.


Tengdar fréttir

Blaðamaður sem afhjúpaði spillingu handtekinn

Lögregla í Simbabve handtók í dag rannsóknarblaðamann sem afhjúpaði spillingu innan heilbrigðisráðuneytisins sem tengdist búnaði vegna kórónuveirufaraldursins. Á sama tíma var leiðtogi stjórnarandstöðuflokks sem skipulagði mótmælaaðgerðir tekinn höndum.

Helmingur Simbabvemanna glímir við matarskort

Óvíða er matvælaöryggi jafnlítið og í Simbabve. Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna reynir nú að aðstoða þann helming þessarar fimmtán milljóna manna þjóðar sem er matarþurfi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×