Fótbolti

Lazio vill fá David Silva til að taka þátt í Meistaradeildarævintýri liðsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
David Silva í leik Manchester City og Norwich City á sunnudaginn. Það var hans síðasti leikur í búningi City.
David Silva í leik Manchester City og Norwich City á sunnudaginn. Það var hans síðasti leikur í búningi City. getty/Tom Flathers

Lazio snýr aftur í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili eftir þrettán ára bið og vill bæta við sig reynslumiklum leikmönnum sem geta hjálpað liðið í þeirri baráttu.

Meðal reynslubolta sem Lazio horfir til er spænski miðjumaðurinn David Silva. Hann hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Manchester City eftir áratug hjá félaginu.

Samkvæmt heimildum Gazzetta dello Sport hitti Silva Igli Tare, íþróttastjóra Lazio, á dögunum.

Félög í Katar hafa einnig áhuga á hinum 34 ára Silva sem varð tvisvar sinnum Evrópumeistari og einu sinni heimsmeistari með spænska landsliðinu á sínum tíma.

Lazio er í 4. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar með 75 stig. Liðið tekur á móti Birki Bjarnasyni og félögum í Brescia í næstsíðustu umferðinni klukkan 17:30 í kvöld.

Lazio var lengi vel í toppbaráttu en rýr uppskera í fyrstu leikjunum eftir hléið vegna kórónuveirufaraldursins gerðu vonir liðsins um fyrsta meistaratitilinn síðan 2000 að engu. Lazio er samt öruggt með sæti í Meistaradeild Evrópu í fyrsta sinn frá tímabilinu 2007-08.

Silva lék sinn 434. og síðasta leik fyrir City þegar liðið sigraði Norwich City, 5-0, í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×