Innlent

Telur Icelandair hafa verið á gráu svæði þegar flug­freyjum var sagt upp

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Stefán Ó. Jónsson skrifa
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, telur Icelandair hafa verið á gráu svæði þegar félagið sagði upp öllum flugfreyjum í miðjum kjaradeilum.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, telur Icelandair hafa verið á gráu svæði þegar félagið sagði upp öllum flugfreyjum í miðjum kjaradeilum. Vísir/Vilhelm

Félagsmálaráðherra telur Icelandair hafa verið á gráu svæði þegar félagið sagði upp öllum flugfreyjum í miðri kjaradeilu. Þá segist hann hafa farið fram á að lög sem meina slökkviliðsmönnum að fara inn í íbúðarhúsnæði verði tekin til skoðunar eftir brunann á Bræðraborgarstíg.

Þann 17. júlí brá Icelandair á það ráð að segja upp öllum þeim 38 flugfreyjum sem störfuðu þá hjá félaginu á meðan kjaradeilan hjá Flugfreyjufélaginu var enn á borði ríkissáttasemjara. Deildar meiningar voru uppi um hvort Icelandair hafi mátt grípa til þessara uppsagna og var viðbúið að málið yrði leyst fyrir Félagsdómi. Til þess kom þó aldrei enda náðu flugfreyjur og Icelandair saman rúmum sólarhring eftir uppsagnirnar.

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra segir hins vegar að í hans huga að ákvörðun Icelandair hafi verið á gráu svæði og gengið á rétt launafólks.

„Mín skoðun er sú að þetta sé ákveðinn réttur sem á að verja launamenn. Þegar þú ert í viðræðum, þegar þú ert inni hjá sáttasemjara þá sé það ekki valkostur að fara þessa leið. Það er algerlega ljóst í mínum huga að þetta hefði ekki staðist. Ég held það sé alveg ljóst, í mínum huga, að menn voru komnir inn á grátt svæði þarna hvað þetta snerti,“ segir Ásmundur.

Hann muni þannig ekki tala fyrir því að önnur fyrirtæki fari sömu leið og Icelandair.

„Maður sér líka núna hættulega umræðu um að það sé bara eðlilegt að fara að stokka þetta kerfi upp til þess að draga úr þessum rétti og því er ég algerlega mótfallinn.“

Á Sprengisandi í morgun var Ásmundur jafnframt spurður um viðbrögð stjórnvalda við brunanum á bræðraborgarstíg í lok júní þar sem þrennt lét lífið. Ráðherra segir rannsókn málsins nú á borði Húsnæðis og mannvirkjastofnunar, sem hann hafi beint tilmælum til.

„Það er inni í lögum í dag að slökkvilið megi ekki fara inn í íbúðarhúsnæði. Ég hef beðið Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um að skoða sérstaklega hvort það sé ástæða til þess að fara í einhverjar lagabreytingar. Ég er tilbúinn til þess að koma fram með þær lagabreytingar sem þurfi til að draga úr líkum að svona geti gerst aftur,“ segir Ásmundur Einar.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Ásmund í heild sinni í spilaranum hér að neðan. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×