Viðskipti innlent

At­­kvæða­­greiðslu um kjara­samning lýkur og Icelandair kynnir upp­­­gjör annars árs­fjórðungs á morgun

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Vísir/Vilhelm

Atkvæðagreiðslu flugfreyja um nýjan kjarasamning lýkur klukkan 12 á hádegi á morgun. Uppgjör Icelandair fyrir annan ársfjórðung verður einnig birt á morgun en bráðabirgðarekstrarniðurstöður benda til þess að tekjur félagsins hafi lækkað um 85 prósent frá sama tímabili í fyrra.

Rafræn atkvæðagreiðsla um kjarasamning Flugfreyjufélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins vegna Icelandair hófst á miðvikudag, 22. júlí, og lýkur á morgun, mánudaginn 27. júlí, klukkan 12 á hádegi. Þeir sem mega greiða atkvæði um samninginn eru starfsmenn Icelandair sem greiða félagsgjöld til Flugfreyjufélagsins.

Fljúga fimm tímum lengur fyrir sömu grunnlaun

Icelandair og FFÍ undirrituðu nýjan kjarasamning aðfaranótt sunnudagsins 19. júlí en föstudaginn áður hafði Icelandair slitið viðræðum við félagið eftir að flugfreyjur kolfelldu fyrri samning í atkvæðagreiðslu í byrjun júlí. Þá hafði Icelandair sagt öllum flugfreyjum og flugþjónum félagsins upp á föstudag en voru þær dregnar til baka eftir að nýr kjarasamningur var undirritaður.

Samkvæmt nýjum kjarasamningi þurfa flugfreyjur að fljúga fimm tímum meira á mánuði fyrir sömu grunnlaun. Kjarasamningurinn gildir til ársins 2025 en þar er búið að samþætta ákvæði flugmanna og flugfreyja um hversu lengi má fljúga á einni vakt.

Samningurinn var kynntur félagsmönnum FFÍ á fundi á Hilton Nordica hótelinu síðastliðinn mánudag og lýstu margar flugfreyjur sem fréttastofa ræddi þá við yfir óánægju vegna samningsins. Flestar virtust þó sammála um það að það yrði að samþykkja samninginn til að halda FFÍ á lífi.

Stefna á hlutafjárútboð í ágúst

Uppgjör Icelandair fyrir annan ársfjórðung verður kynnt á morgun en EBIT félagsins, rekstrarafkoma þess fyrir fjármagnsliði og skatta, er samkvæmt bráðabirgðarekstrarniðurstöðum neikvætt um 100 til 110 milljónir Bandaríkjadala eða um 15 milljarðar íslenskra króna.

Icelandair sendi Kauphöllinni bráðabirgðaútreikninga síðastliðinn miðvikudag en þar sagði að tekjur félagsins hafi numið um 60 milljónum dala á fjórðungnum eða um 8,3 milljörðum króna. Handbært fé og jafngildi þess hafi verið um 154 milljónir Bandaríkjadala við lok fjórðungsins, í kring um 21 milljarð króna.

Icelandair stefnir jafnframt að því að bjóða út hlutafé félagsins í ágúst. Icelandair stefnir á að klára samninga við fimmtán lánadrottna, stjórnvöld og Boeing flugvélaframleiðandann fyrir lok mánaðar áður en farið verður í hlutafjárútboð.


Tengdar fréttir

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ICEAIR
12,5
171
450.216
REITIR
3,54
20
173.959
REGINN
3,41
13
75.675
EIK
3,06
10
86.244
KVIKA
2,42
33
476.658

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
BRIM
-0,55
3
83.240
ICESEA
0
11
159.681
VIS
0
6
55.124
SJOVA
0
11
157.421
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.