Erlent

Greiða atkvæði um framtíð samfélagsmiðla í Tyrklandi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lögin myndu setja setja samfélagsmiðlum verulegar skorður, yrði frumvarp til þeirra samþykkt.
Lögin myndu setja setja samfélagsmiðlum verulegar skorður, yrði frumvarp til þeirra samþykkt. Muhammed Selim Korkutata/Getty

Tyrkneska þingið undirbýr nú atkvæðagreiðslu um lagafrumvarp sem myndi, ef það yrði samþykkt, veita yfirvöldum víðtækar heimildir til þess hafa áhrif á samfélagsmiðla á borð við Facebook, Twitter og YouTube. Guardian greinir frá þessu.

Frumvarpið felur í sér reglur sem kveða á um að samfélagsmiðlar með yfir eina milljón notenda þyrftu annað hvort að hafa formlega viðveru í Tyrklandi eða hafa fulltrúa frá sér í Tyrklandi, sem hægt yrði að draga til lagalegrar ábyrgðar gagnvart tyrkneskum stjórnvöldum.

Þá þyrftu fyrirtækin eða fulltrúar þeirra að svara kvörtunum um efni sem bryti lög um persónuvernd innan 48 klukkustunda. Eins þyrftu alþjóðleg fyrirtæki í samfélagsmiðlarekstri að geyma gögn notenda sinna innan Tyrklands.

Verði frumvarpið að veruleika geta tyrknesk stjórnvöld beitt þau fyrirtæki sem ekki myndu fylgja reglunum þungum sektum, auk þess sem þeim yrði heimilt að draga úr bandbreidd samfélagsmiðlanna um allt að 90 prósent. Yrði hið síðarnefnda gert myndi það í raun þýða að innan Tyrklands væri ekki hægt að nota samfélagsmiðilinn sem ætti í hlut.

Eins myndi frumvarpið veita dómstólum heimild til þess að skikka vefmiðlum til þess að fjarlægja eða draga til baka birt efni innan sólarhrings frá birtingu. Drög að frumvarpinu voru samþykkt í dag en ekki liggur fyrir hvenær atkvæðagreiðsla um það fer fram. Búist er við því að frumvarpið verði samþykkt en það nýtur stuðnings flokks Receps Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, og samstarfsflokks hans í ríkisstjórn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×