Erlent

Sá grunaði í máli Madelein­e talinn tengjast nauðgun frá 2004

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Christan B er grunaður um aðild að hvarfinu á Madeleine McCann.
Christan B er grunaður um aðild að hvarfinu á Madeleine McCann. Vísir/Getty/Samsett

Lögreglan í Portúgal rannsakar nú hvort maður sem hefur réttarstöðu grunaðs manns í rannsókninni á hvarfi Madeleine McCann geti einnig tengst nauðgun á Algarve í Portúgal, þremur árum fyrir hvarfið.

Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá því að maðurinn, Christian Brückner, hafi mögulega tengsl við nauðgun á Hazel Behan, 37 ára írskri konu sem ráðist var á nálægt Praia da Luz árið 2004. Madeleine McCann hvarf árið 2007.

Portúgalska lögreglan hefur þá sagst ætla að koma öllum sönnunargögnum sem kunni að koma fram í málinu til þýskra kollega sinna, sem rannsaka nú hvarf Madeleine.

Þá hefur BBC eftir heimildamönnum sínum að lögregluyfirvöld hafi undir höndum „trúverðugar upplýsingar“ þess efnis að Brückner, sem er 43 ára Þjóðverji, gæti tengst nauðguninni á Behan en í rannsókn á máli hennar lá aldrei neinn undir grun og sönnunargögn eyðilögðust.

Síðan þá hafa rannsóknir lögreglunnar þó leitt í ljós að Brückner var sakfelldur fyrir nauðgun í Praia da Luz, sambærilega þeirri sem nú er til rannsóknar.

Þó að rannsóknin gæti leitt tengsl mannsins við árásina í ljós yrði hann þó ekki sakfelldur, en fyrningarfrestur nauðgana í Portúgal er 15 ár.

Varð viðfangsefni rannsóknarinnar í síðasta mánuði

Brückner, sem situr nú í fangelsi í Þýskalandi fyrir nauðgun, varð miðpunktur rannsóknar þýskra og breskra lögregluyfirvalda á hvarfi Madeleine McCann, sem hvarf af hótelherbergi í Praia da Luz á Algarve í Portúgal árið 2007. Hún var þá þriggja ára gömul.

Brückner er talinn hafa verið á svæðinu þegar Madeleine hvarf. 

Lögregluyfirvöld í Bretlandi segja málið enn unnið út frá þeirri forsendu að Madeleine sé á lífi, þar sem aldrei hafi komið fram óyggjandi sönnunargögn fyrir andláti hennar. Þýskir saksóknarar sem hafa haft aðkomu að málinu segjast hins vegar gera ráð fyrir því að Madeleine sé látin.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×