Innlent

Segir Ragnar Þór gefa sjóðsfélögum langt nef

Jakob Bjarnar skrifar
Halldór Benjamín telur Ragnar Þór vera kominn langt út fyrir sitt verksvið: „Þetta er nefnilega ekki eina dæmið, heldur virðist svona útspil í pólítískum tilgangi vera árviss viðburður úr herbúðum VR.“
Halldór Benjamín telur Ragnar Þór vera kominn langt út fyrir sitt verksvið: „Þetta er nefnilega ekki eina dæmið, heldur virðist svona útspil í pólítískum tilgangi vera árviss viðburður úr herbúðum VR.“ visir/vilhelm

„Við finnum einfaldlega að því að að VR kjósi að stilla stjórnarmönnum sínum upp við vegg með þessum hætti og hafa þar með, í þessu tilviki, óeðlileg áhrif á fjárfestingarákvarðanir í hlutafjárútboði Icelandair,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í samtali við Vísi.

Eins og Vísir hefur greint skilmerkilega frá hefur Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR haft sig mjög í frammi í tengslum við kjarabaráttu Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair. SA hefur sent sérstakt erindi til Seðlabanka Íslands þar sem þess er óskað að hann grípi til tafarlausra aðgerða, umfram almenn tilmæli til hagsmunaaðila almennt, til að standa vörð um sjálfstæði sjóðsins og hag sjóðsfélaga.

„Það er alveg sama hvar drepið er niður. Þarna innanborðs eru bara óhæfir stjórnendur og við hljótum að gera kröfu um að stærstu eigendur félagsins, lífeyrissjóðirnir, kalli til hluthafafundar þar sem gerð verði krafa um að stjórnendum verði tafarlaust skipt út,“ sagði Ragnar Þór í samtali við Vísi.

Halldór Benjamín er afar ósáttur við framgöngu Ragnars Þórs, og telur hann vera kominn langt út fyrir sitt verksvið.

„Við viljum að fjármálaeftirlit Seðlabankans leggi mat sitt á hvort það samræmist lögum og reglum. Þetta er nefnilega ekki eina dæmið, heldur virðist svona útspil í pólítískum tilgangi vera árviss viðburður úr herbúðum VR. Og þá er engu skeytt um leikreglur. Þarna er einfaldlega verið að gefa sjóðsfélögum og Seðlabankanum langt nef og trúverðugleiki bankans er undir í þessu máli.“

Skorar á FME að skoða möguleg umboðssvik og spillingu innan lífeyriskerfisins

Uppfært 15:44

Vísir innti Ragnar Þór eftir viðbrögðum hans við þessu útspili SA. Hann segist skora á SA til viðræðna um að hvorki SA né stéttarfélögin skipi í stjórnir sjóðanna.

„Að lögum verði breytt þannig að sjóðfélagar kjósi stjórnir sjóðanna sjálfir. Þannig gætum við vonandi takmarkað þann grímulausa þjófnað sem atvinnulífið hefur stundað áratugum saman á eftirlaunasjóðum launafólks. Í algjöru skjóli er virðist frá eftirlitsaðilum.“

Ragnar Þór segir að þetta hljóti að vera auðsótt miðað við yfirlýsingu SA.

„Svo skora ég á FME að taka til skoðunar möguleg umboðssvik og spillingu innan lífeyriskerfisins sem snýr að aðgerðarleysi stjórna sjóðanna í þeim fjölmörgu spillingarmálum sem komið hafa upp undanfarin ár og þar af nógu að taka.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×