Innlent

Fólk sem greindist með kórónuveiruna en fann fyrir litlum einkennum tínist inn í endurhæfingu

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Pétur Magnússon, forstjóri Reykjalundar.
Pétur Magnússon, forstjóri Reykjalundar.

Í kjölfar faraldurs kórónuveirunnar tók Reykjalundur á móti fólki sem áður lá þungt haldið á Landspítalanum vegna sjúkdómisins. Skjólstæðingarnir áttu það allir sameiginlegt að hafa verið með öndunarfærabilun og þurftu á endurhæfingu að halda til að komast aftur út í hið daglega líf.

Nú hefur Reykjalundur fengið fjölda af umsóknum frá fólki sem þarf á endurhæfingu að halda þrátt fyrir að það hafi ekki veikst alvarlega af veirunni á sínum tíma og lagðist því ekki inn á spítala.

„Það er töluverður fjöldi af einstaklingum sem smitaðist en veiktist ekki mjög mikið, allavegana þurftu ekki að leggjast inn á spítala og jafnvel fengu lítil einkenni. Þetti hópur er að koma fram núna mörgum vikum eftir smit og er ekki búinn að ná sér að fullu,“ sagði Pétur Magnússon, forstjóri Reykjalundar.

Fólkið finnur fyrir mikilli þreytu, úthaldsleysi og almennum lungnaeinkennum.

„Þessi hópur virðist vera töluvert stór en það er þó ekkert búið að kortleggja enn hversu margir þetta eru og það þarf í rauninni að ráðast í þá vinnu núna,“ sagði Pétur.

Hann segir mikilvægt að kortleggja þenna hóp og greina umfang hans. Dæmi eru um að fólk sé veikara nú en það var þegar það barðist við veiruna. Pétur segir líðan fólks sveiflukennda.

„Það er gott í einhvern tíma en fari síðan aftur niður á veikindastig ef við getum sagt sem svo. Jafnvel að þetta sé að endurtaka sig á nokkurra vikna fresti. Þetta er forvitnilegt sjónarhorn sem við þekktum ekki áður,“ sagði Pétur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×