Innlent

Fresta lokun fangelsisins á Akureyri

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Fangelsið á Akureyri er í sama húsnæði og embætti lögreglunnar á Norðurlandi eystra.
Fangelsið á Akureyri er í sama húsnæði og embætti lögreglunnar á Norðurlandi eystra. vísir/vilhelm

Dómsmálaráðherra segist hafa farið fram á það við fangelsismálastjóra að lokun fangelsisins á Akureyri verði frestað til 15. september. Lokunin hefur sætt nokkurri gagnrýni undanfarna daga, til að mynda hafa samflokksmenn ráðherra og aðrir úr stjórnarliðinu kallað eftir því að ákvörðunin yrði endurskoðuð.

Tilkynnt var í síðustu viku að ætlunin væri að loka fangelsinu á Akureyri, sem er minnsta rekstrareining Fangelsismálastofnunar. Ætlunin væri að nýta betur þá fjármuni sem renna til fangelsismála, en samkvæmt heimildum Vísis hefur rekstrarkostnaður fangelsins verið um 100 milljónir árlega.

Eftir því sem Vísir kemst næst dyggði það rekstrarfé til að opna nýtt hús á Litla hrauni, bæta við tveimur starfsmönnum og taka við 30 fleiri föngum. Þannig megi auka skilvirkni Fangelsismálastofnunar. Fimm starfsmenn eru fastráðnir í fangelsinu á Akureyri og eru þar að jafnaði átta til tíu fangar.

Hin fyrirhugaða lokun hefur sætt töluverðri gagnrýni, ekki síst frá þingmönnum kjördæmisins. Má þar nefna Njál Trausta Friðbertsson, samflokksmann dómsmálaráðherra, og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur þingflokksformann VG.

Beðið eftir úttekt

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, segist nú hafa frestað lokun fangelsisins. Í Facebook-færslu skrifar ráðherra að hún hafi óskað eftir því að við ríkislögreglustjóra að lagt yrði mat á hugsanlegan viðbótarkostnað lögreglunnar á Akureyri vegna lokunar fangelsins þar.

„Þessi úttekt mun ekki liggja fyrir þegar lokunin á að koma til framkvæmda í lok mánaðarins. Í ljósi þess og í framhaldi funda með hagaðilum fyrir norðan sl. þriðjudag hef ég óskað eftir því við fangelsimálastjóra að framkvæmd lokunarinnar á fangelsinu á Akureyri verði frestað til 15. september,“ skrifar Áslaug.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.