Innlent

Efast um að Ísland sé góður urðunarstaður öskra

Jakob Bjarnar skrifar
Hugmyndin um að gefa ferðamönnum kost á að öskra í óbyggðum, dömpa þar ergelsi tengdu Covid-19, fellur í grýttan jarðveg. Í gær furðaði Egill Helgason sig á þessu uppátæki og í dag biðlar Guðmundur Andri til Íslandsstofu: Hættiði við.
Hugmyndin um að gefa ferðamönnum kost á að öskra í óbyggðum, dömpa þar ergelsi tengdu Covid-19, fellur í grýttan jarðveg. Í gær furðaði Egill Helgason sig á þessu uppátæki og í dag biðlar Guðmundur Andri til Íslandsstofu: Hættiði við.

Guðmundur Andri Thorsson þingmaður bætist nú í hóp þeirra fjölmörgu sem leyfa sér að efast um að hugmynd sem Íslandsstofa er að útfæra sé góð, sú sem felst í því að koma hátölurum fyrir í náttúrunni og magna þar upp örvæntingarfull covid-öskur.

Guðmundur Andri skrifar snarpan pistil á Facebooksíðu sína sem þegar hefur vakið mikla athygli en í fyrirsögn hans er spurn: Urðunarstaður öskra?

Að dömpa hér öllu ergelsi

„Hugmyndin um Ísland sem urðunarstað öskra er soldið góð í tvær sekúndur en verður svo strax eiginlega ansi vond. 

Þetta gerist þegar fengin er til verka auglýsingastofa með lítil eða mjög lausbundin tengsl við Ísland – landið er þar en ekki hér í vitund fólksins sem þetta vinnur. Útkoman er næstum því eins og afurð heimsvaldastefnunnar,“ segir Guðmundur Andri.

Vísir greindi frá því í gær að Egill Helgason sjónvarpsmaður vakti máls á þessu framtaki, hann spyr sig hvort hin stóra erlenda auglýsingastofa, sem þiggur stórfé fyrir að byggja upp ímynd Íslands erlendis, sé í tómu rugli? En sjö hátölurum hefur, af Íslandsstofu, verið komið upp víðsvegar um landið. Næstu tvær vikurnar munu þeir varpa út öskri fólks sem vill losa um streitu í kórónuveirufaraldrinum. Hugmyndin er ekki að falla í kramið hér.

Líkt og Egill leyfir þingmaðurinn sér að efast um að þetta sé góð hugmynd: „Hugmyndin snýst um að hægt sé að dömpa hér öllu ergelsi, eins og heimsveldin urða kjarnorkuúrganginn sinn á eyjum þar sem býr varnarlaust fólk. Þú öskrar heima hjá þér og það kemur svo út um gulan – gulan! – risahátalara einhvers staðar í óbyggðunum hér.“

Kæra Íslandsstofa, ekki gera þetta

Guðmundur Andri segir að sá sem hafi snefil af tilfinningu fyrir íslenskri náttúru, óbyggðunum, viti „að áhrifamáttur þeirra felst ekki síst í þögninni, þessari voldugu kyrrð. Hver sá sem vinnur með það að selja ferðir til Íslands hlýtur að byrja á því að vinna með þetta: þögn öræfanna – hina heilögu þögn öræfanna sem umlykur stórborgarbúann og afvopnar hann, strýkur honum ásamt golunni á vanga og knýr hann til að leita inn á við og horfast í augu við innri mann og allt sitt bauk í lífinu fram að því.“

Guðmundur Andri biðlar til Íslandsstofu: „Í guðanna bænum, kæra Íslandsstofa, ekki gera þetta. Segiði svo auglýsingastofunni að spyrja næst einhvern Íslending hvort þetta sé góð hugmynd.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.