Fótbolti

Jón Dagur gæti fengið samherja frá Liverpool

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jón Dagur Þorsteinsson hefur leikið afar vel með AGF á leiktíðinni.
Jón Dagur Þorsteinsson hefur leikið afar vel með AGF á leiktíðinni. VÍSIR/GETTY

Það gæti farið sem svo að Jón Dagur Þorsteinsson, leikmaður AGF, fái samherja frá Liverpool fyrir næstu leiktíð í danska boltanum.

Ekstra Bladet í Danmörku greinir frá því að AGF fylgist náið með framgangi mála hjá markverðinum Kamil Grabara sem er samningsbundinn Liverpool.

Þessi 21 árs markvörður var lánaður til AGF frá janúar fram í júní árið 2019 en hann hefur á þessu ári verið lánaður til Huddersfield í ensku B-deildinni.

Ekstra Bladet segir frá því að AGF fylgist með stöðu Grabara og hafi einnig haft samband við Liverpool og lýst yfir áhuga sínum á markverðinum.

Grabara hefur ekki náð að brjótast inn í aðallið Liverpool en hann hefur ekki spilað leik með liðinu.

Hann spilaði sextán leiki fyrir AGF á sínum tíma en samningur hans við Liverpool rennur út árið 2022.

William Eskelinen hefur staðið í marki AGF í ár en hann hefur átt erfitt uppdráttar í mörgum leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×