Innlent

53 vélar væntanlegar næstu þrjá daga

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Icelandair byrjar að fljúga til Toronto í Kanada á næstunni.
Icelandair byrjar að fljúga til Toronto í Kanada á næstunni. Vísir/Vilhelm

Þrettán erlend flugfélög fljúga til landsins í vikunni og alls er búist 53 komum farþegaflugvéla á Keflavíkurflugvöll næstu þrjá daga. Ríflega helmingi fleiri flugvélar hafa komið til landsins í júlí en í júní. Frá og með morgundeginum verður íbúum 14 ríkja leyfilegt að ferðast til landsins.

Dómsmálaráðherra ákvað í gær að framlengja ferðatakmarkanir ESB og Schengen en afnema frá og með 15. júlí nk. takmarkanir gagnvart íbúum fjórtán ríkja í samræmi við ákvörðun aðildarríkja ESB þar að lútandi, þar á meðal er Kanada. 

Í nýrri reglugerð ráðherra kemur einnig fram að bannið eigi ekki við um íbúa og ríkisborgara Andorra, Mónakó, San Marínó og Vatíkansins. Icelandair byrjar að fljúga til Toronto í Kanada eftir viku og er samkvæmt áætlun félagsins flogið til borganna tvisvar í viku.

Mikil aukning milli mánaða

Þrettán erlend flugfélög hafa boðað komu sína á Keflavíkurflugvöll í þessari viku og samtals er búist við að 53 vélar lendi þar. Þetta er gríðarleg aukning milli mánaða en frá 15. júní til júníloka lentu 150 vélar á vellinum. Það sem af er júlí og til fimmtudags verða þær alls 261.

Páll Þórhallsson, verkefnisstjóri í Forsætisráðuneytinu, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að nú væri farið að reyna verulega á við landamærin þar sem ekki væri hægt að skima fleiri farþega en 2000 á degi hverjum.

„Áætlanir flugfélaga og áætlanir um hvað margir eru um borð benda til þess að við erum komin yfir mörkin. Þá hefur sóttvarnalæknir boðað að hann muni endurskoða hvaða lönd eru talin  örugg, þannig að það þurfi ekki að skima þaðan,“ segir Páll.

Farþegar sem koma frá Færeyjum og Grænlandi eru undanþegnir skimunum á landamærunum. Sóttvarnarlæknir sagði í samtali við fréttastofu í gær að mögulega verði tilkynnt í dag að íbúar fleiri landa séu undanþegnir skimunum. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og landlæknir boða til upplýsingafundar fyrir fjölmiðla klukkan 14:00 og verður hann í beinni útsendingu á Vísi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×