Fótbolti

Haaland hent út af skemmtistað – Í skógarhögg eftir skilaboð frá pabba

Sindri Sverrisson skrifar
Erling Braut Haaland sló í gegn á fyrsta misseri sínu sem leikmaður Dortmund. Hann er nú í stuttu sumarfríi.
Erling Braut Haaland sló í gegn á fyrsta misseri sínu sem leikmaður Dortmund. Hann er nú í stuttu sumarfríi. VÍSIR/GETTY

Hinum 19 ára gamla markahrók Erling Braut Haaland var vísað út af skemmtistað heima í Noregi um helgina þar sem hann hafði skemmt sér með vinum sínum.

Fjöldi fólks varð vitni að því þegar öryggisvörður kom Haaland út og atvikið náðist einnig á myndband sem farið hefur víða á samfélagsmiðlum. Þar sést Haaland einnig láta öryggisvörðinn heyra það áður en félagar hans koma honum í burtu.

Hvorki Haaland né Dortmund, félag hans í Þýskalandi, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins en Alf Inge, faðir leikmannsins, sló á létta strengi á Twitter og sagði syni sínum að koma sér aftur til vinnu í sveitinni – næturlífið í borginni væri ekki fyrir hann. Framherjinn birti svo mynd af sér með keðjusög, klár í að saga niður við fyrir veturinn.

Samkvæmt Öyvind Sörensen, vini Haaland, og yfirmanni öryggisgæslunnar á skemmtistaðnum, var Haaland vísað út til að koma í veg fyrir að fólk hópaðist enn frekar í kringum hann. Í Noregi eru í gildi reglur vegna kórónuveirufaraldursins og þó að 200 manns megi koma saman þá er ætlast til þess að fjarlægðamörk séu virt.

„Vegna þeirra regla sem eru í gildi vegna Covid-19 fylgdist öryggisgæslan með hópnum í kringum Erling Braut Haaland. Menn vissu að aðdáendurnir myndu ekki hætta að hópast í kringum hann, biðja um myndir og tala við hann. Á endanum var troðningurinn orðinn svo mikill að við urðum að biðja hann um að fara,“ sagði yfirmaður öryggisgæslunnar við Bild og fullyrti að Haaland hefði ekki verið drukkinn.

Haaland er í stuttu sumarfríi eftir að tímabilinu í Þýskalandi lauk í lok síðasta mánaðar. Hann skoraði 13 mörk í 15 deildarleikjum fyrir Dortmund sem endaði í 2. sæti. Áætlað er að ný leiktíð í Þýskalandi hefjist 21. ágúst.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.