Enski boltinn

Solskjær segir að De Gea þurfi á fleiri titlum að halda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David de Gea hefur haldið marki sínu hreinu í þremur af síðustu fjórum leikjum Manchester United.
David de Gea hefur haldið marki sínu hreinu í þremur af síðustu fjórum leikjum Manchester United. EPA-EFE/Joe Giddens

Spænski markvörðurinn David De Gea hefur verið lengi hjá Manchester United og hann spilar í kvöld sinn 400. leik fyrir félagið komist hann í byrjunarliðið hjá knattspyrnustjóranum Ole Gunnar Solskjær.

Solskjær ræddi þessi tímamót Spánverjans í aðdraganda leiksins og hvað hann haldi að angri helst markvörðinn sinn þessum tímapunkti á ferli hans.

David De Gea verður aðeins annar markvörðurinn í sögu Manchester United til að ná fjögur hundruð leikjum fyrir klúbbinn en hinn er Alex Stepney sem varði mark United frá 1966 til 1978.

„Ég held að hann verði ekki sáttur með ferilinn sinn fyrr en hann vinnur fleiri titla,“ sagði Ole Gunnar Solskjær um hinn 29 ára gamla spænska markvörð.

David De Gea hefur fjórum sinnum verið valinn leikmaður ársins hjá Manchester United eða einu sinni oftar en Cristiano Ronaldo sem dæmi.

„Hann hefur unnið sér inn persónulegar viðurkenningar en David er ekki týpan sem er að hugsa um slíkt. Ég held að hann vilji að liðið vinni titla. Hann er búinn að vera svona lengi hjá Manchester United og hefur ekki unnið meira. Honum finnst það örugglega vera svartur blettur á ferli sínum, sagði Solskjær.

De Gea hefur verið í níu tímabil hjá Manchester United og hefur bara orðið enskur meistari einu sinni auk þess að vinna einn bikarmeistaratitil, enska deildabikarinn einu sinni og svo Evrópudeildina einu sinni. De Gea var samt á bekknum í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.

Peter Schmeichel vann ellefu stóra titla með Manchester United þar af ensku deildina fimm sinnum en hann var í átta ár hjá Manchester United og lék 398 leiki fyrir félagið.

David De Gea fékk á sig gagnrýni fyrir mark sem hann fékk á sig á móti Tottenham en hefur síðan haldið markinu hreinu í þremur af síðustu fjórum leikjum United liðsins.

Manchester United liðið er líka farið að líta út eins og lið sem getur farið að blanda sér aftur í baráttuna um enska meistaratitilinn.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.