Enski boltinn

Brentford lætur toppliðin ekki í friði

Ísak Hallmundarson skrifar
Leikmenn Brentford sáttir eftir leik.
Leikmenn Brentford sáttir eftir leik. getty/Ross Kinnaird

Brentford nálgast nú óðum efstu lið í ensku Championship-deildinni, næstefstu deild Englands, en liðið vann sinn sjötta leik í röð í dag þegar liðið mætti Derby County.

Derby þurfti nauðsynlega á sigri að halda í baráttunni um umspilssæti en Brentford á enn möguleika á að fara beint upp í ensku úrvalsdeildina.

Fyrsta mark leiksins skoraði Ollie Watkins fyrir Brentford strax á þriðju mínútu leiksins. Derby svaraði á 29. mínútu þegar Wayne Rooney lagði boltann á Jason Knight sem skoraði. Staðan 1-1 í hálfleik.

Á 49. mínútu kom Said Benrahma Brentford yfir á nýjan leik. Hann var síðan aftur á ferðinni á 64. mínútu og innsiglaði 3-1 sigur Brentford sem er nú með 78 stig í þriðja sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir West Brom í öðru sætinu og þremur á eftir Leeds á toppnum. Bæði þessi lið eiga þó leik til góða á Brentford. 

Derby er aftur á móti í 9. sæti, þremur stigum frá umspilssæti. 

Einn annar leikur fór fram á sama tíma, þar sem Charlton fékk Reading í heimsókn. Lauk leiknum með 0-1 sigri Reading, sem siglir lygnan sjó í 13. sæti. Charlton er í bullandi fallhættu í 20. sæti, stigi ofar en fallsæti.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.