Enski boltinn

Brentford lætur toppliðin ekki í friði

Ísak Hallmundarson skrifar
Leikmenn Brentford sáttir eftir leik.
Leikmenn Brentford sáttir eftir leik. getty/Ross Kinnaird

Brentford nálgast nú óðum efstu lið í ensku Championship-deildinni, næstefstu deild Englands, en liðið vann sinn sjötta leik í röð í dag þegar liðið mætti Derby County.

Derby þurfti nauðsynlega á sigri að halda í baráttunni um umspilssæti en Brentford á enn möguleika á að fara beint upp í ensku úrvalsdeildina.

Fyrsta mark leiksins skoraði Ollie Watkins fyrir Brentford strax á þriðju mínútu leiksins. Derby svaraði á 29. mínútu þegar Wayne Rooney lagði boltann á Jason Knight sem skoraði. Staðan 1-1 í hálfleik.

Á 49. mínútu kom Said Benrahma Brentford yfir á nýjan leik. Hann var síðan aftur á ferðinni á 64. mínútu og innsiglaði 3-1 sigur Brentford sem er nú með 78 stig í þriðja sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir West Brom í öðru sætinu og þremur á eftir Leeds á toppnum. Bæði þessi lið eiga þó leik til góða á Brentford. 

Derby er aftur á móti í 9. sæti, þremur stigum frá umspilssæti. 

Einn annar leikur fór fram á sama tíma, þar sem Charlton fékk Reading í heimsókn. Lauk leiknum með 0-1 sigri Reading, sem siglir lygnan sjó í 13. sæti. Charlton er í bullandi fallhættu í 20. sæti, stigi ofar en fallsæti.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.