Innlent

Dúxinn á­nægður með að rétt­lætið hafi sigrað

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Davíð Atli Gunnarsson, dúx úr Framhaldsskólanum á Húsavík.
Davíð Atli Gunnarsson, dúx úr Framhaldsskólanum á Húsavík. Samsett

„Mín viðbrögð eru bara þau að réttlætið sigraði, þetta er bara þannig,“ segir Davíð Atli Gunnarsson, dúx úr Framhaldsskólanum á Húsavík sem synjað var um skólavist við Háskólann á Akureyri um mánaðamótin. HA tilkynnti í dag að allir umsækjendur með stúdentspróf, sem ekki fengu inngöngu í skólann nú í vor, myndu fá jákvætt svar um skólavist fyrir lok dags í dag.

Davíð vakti athygli á máli sínu í viðtali við Vísi í síðustu viku. Hann útskrifaðist frá Framhaldsskólanum í Húsavík í fyrra með meðaleinkunnina 9,38 og nær fullkomna mætingu. Í vor sótti Davíð um að hefja nám við viðskiptafræðideild HA haustið 2020 en fékk synjun, að öllum líkindum vegna þess að forgangsraða þurfti umsóknum sökum mikillar aðsóknar og umsókn Davíðs uppfyllti ekki nægilega þá matsþætti sem voru til grundvallar.

Davíð sagði í samtali við Vísi á sínum tíma að hann væri mjög óánægður með afgreiðslu skólans á umsókn hans.

„Ég bjóst ekki við því að mér yrði hafnað. Það kom ekki upp í hugann. Ég sótti ekki um neins staðar annars staðar því ég gekk bara að því að ég myndi komast inn. Þannig að nú er ég í pattstöðu því ég hreinlega veit ekki hvað ég á að gera,“ sagði Davíð.

Þegar blaðamaður náði tali af Davíð síðdegis í dag var hann í vinnunni og hafði ekki heyrt af ákvörðun háskólaráðs, sem tekin var á fundi ráðsins í morgun. Fregnirnar komu honum því vitanlega á óvart – en fyrst og fremst voru tíðindin afar gleðileg.

„Þetta er virkilega ánægjulegt,“ segir Davíð. Hann setti sig í samband við skólann eftir að umsókn hans var synjað en hafði ekki fengið nein viðbrögð. Þá hafði hann nú á fjórða tímanum raunar ekki fengið staðfestingu á skólavist í haust en gera má ráð fyrir að von sé á henni. Í tilkynningu segir að allir umsækjendum sem uppfylltu inntökuskilyrði fái jákvætt svar fyrir lok dags í dag.

„Ég er bara að fá þessar fréttir núna, frá þér,“ segir Davíð léttur í bragði. Hann kveðst ekki hafa verið búinn að gera neinar ráðstafanir fyrir haustið.

„Maður auðvitað byrjaður í einhverjum pælingum en ég ætlaði nú ekki að fara að staðfesta neitt eða gera neitt meira fyrr en ég fékk endanlegt svar. Og nú er það komið. Þannig að ég sætti mig bara við þessa niðurstöðu.“

Þannig að þú býrð þig undir að byrja í viðskiptafræði í haust?

„Já, ég geri það svo sannarlega.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.