Innlent

Icelandair flytur strandaglópa milli Bandaríkjanna og Armeníu

Andri Eysteinsson skrifar
Flugvélar Icelandair við Leifsstöð
Flugvélar Icelandair við Leifsstöð Vísir/Vilhelm

Samningar hafa náðst um að Icelandair sinni leiguflugi á milli borganna Los Angeles í Bandaríkjunum og Jerevan, höfuðborg Armeníu. 

Á annað þúsund armenskra og bandarískra ríkisborgara hafa verið strandaglópar vegna Covid-19 faraldursins en hefur nú verið veitt heimild til þess að fólkið komist heim.

Verkefnið er unnið í samvinnu við armensk stjórnvöld, flutningafyrirtækið Cross Line og kjörræðismann Íslands í Armeníu.

Mikill fjöldi Bandaríkjamanna af armenskum uppruna búa í og við Los Angeles í Kalíforníu en farþegafjöldinn sem Icelandair mun flytja er á annað þúsund. Boeing 767 vélar Icelandair verða nýttar í verkefninu en þær taka 260 farþega. Fyrsta flug fer frá LAX flugvellinum í Los Angeles 11. júlí og fyrsta flug frá Jerevan fer 13. júlí.

„Þessi flug eru kærkomin viðbót við fragtflug frá Kína til Evrópu og Norður Ameríku sem Icelandair Group hefur sinnt á undanförnum vikum. Verkefni sem þessi færa félaginu auknar tekjur og skapa störf fyrir starfsfólk þar sem undirbúningur og skipulag fer fram hér á landi. Þetta er gott dæmi um þann sveigjanleika sem Icelandair Group og dótturfélög þess búa yfir til að taka að sér verkefni sem þessi með skömmum fyrirvara.“ Segir Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair Group.

Á milli 9-12 manns verða í hverri áhöfn í samræmi við núverandi verklagsreglur Icelandair. 2-3 flugmenn, sex flugfreyjur og einn flugvirki.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.