Innlent

Telur að endurskoða þurfi lagaákvæði um akstur utan vega

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Akstur utan vega getur valdið náttúruspjöllum.
Akstur utan vega getur valdið náttúruspjöllum. Mynd/Umhverfisstofnun

Sveinbjörn Halldórsson, formaður ferðaklúbbsins 4x4, segir það mikið hagsmunamál fyrir félagið að ökumenn hér á landi haldi sig innan vega og slóða, og aki þannig ekki utan vega. Þá telur hann tilefni til að endurskoða lög um náttúruvernd frá 2013, en þar er tekið á utanvegaakstri.

Sveinbjörn var til viðtals í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Þar ræddi hann um akstur utan vega, en nokkur umræða hefur farið af stað eftir fréttaflutning af hópi tékkneskra jeppakalla, sem birti myndir og myndskeið af jeppum sínum utan vega. Málinu lauk með tiltali frá lögreglu, en ekki var unnt að staðsetja brot mannanna nákvæmlega.

„Lögin eru bara þannig að utanvegaakstur er bannaður á Íslandi,“ segir Sveinbjörn. Þó séu undantekningar á því, þar sem björgunarsveitir, bændur og vísindamenn fái að keyra utan vega.

„Það sem við höfum verið að benda á er að sá utanvegaakstur er ekki leyfisskyldur.“

Hann segir að oft fari af stað umræða um utanvegaakstur, og hann oft sagður mikill, en leyfður utanvegaakstur sé hvergi skráður. Þá segir hann utanvegaakstur bannaðan, óháð því umhverfi sem ekið er um.

„Lögin gera engar skilgreiningar á því hvernig umhverfið lítur út. Lagabókstafurinn er rosalega fast skilgreindur og það hefur oft verið bent á að það er verið að setja lög sem er jafnvel ekki farið eftir. Þú mátt til dæmis ekki keyra í fjöruborði. Þú mátt ekki á áreyrum, þar sem þú ert að leita þér að vaði til að fara yfir á. Í ströngum skilningi laganna máttu ekki keyra upp með ánni til þess að leita þér að betra vaði, heldurðu verður þú bara að fara þar sem vegurinn liggur,“ segir Sveinbjörn.

Þá segist Sveinbjörn telja tilefni til endurskoðunar á lögunum.

„Lögin eru þannig að það þarf að fara að endurskoða þetta, því það er verið að setja á okkur lög sem bæði er vonlaust að fylgja eftir og í öðru lagi þá eru menn ekkert að fylgja þeim.“

Vægari refsing ef brot er framið með bílaleigubíl

Í áðurnefndum lögum um náttúruvernd frá 2013 er heimild til þess að gera ökutæki, sem notuð hafa verið við framningu brots á lögunum, upptæk. Sveinbjörn telur ákveðna mismunun felast í þessu.

„Þarna bentum við á að þarna er verið að mismuna okkur. Ef þú ert á bílaleigubíl getur þú keyrt út um allt og ert bara sektaður um fjögur til fimm hundruð þúsund. Ef þetta hefði verið Íslendingur á sínum eigin bíl, þá hefði hann verið bara sektaður um fjögur til fimm hundruð þúsund og bíllinn tekinn af honum. Það er kannski ökutæki upp á tíu til fimmtán milljónir.“

Viðtalið við Sveinbjörn má heyra í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×