Fótbolti

Andri kom inn á fyrir Bologna og Birkir byrjaði fyrir Brescia

Ísak Hallmundarson skrifar
Andri Fannar í leiknum gegn Inter á dögunum.
Andri Fannar í leiknum gegn Inter á dögunum. getty/Mattia Ozbot

Sex leikir fóru fram í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Í tveimur þeirra komu Íslendingar við sögu.

Bologna mætti Sassuolo og kom Andri Fannar Baldursson inn á sem varamaður á 74. mínútu fyrir Bologna í 1-2 tapi. Þetta var annar leikurinn í röð sem Andri fær að taka þátt í fyrir Bologna. Bologna situr í 10. sæti deildarinnar en með sigrinum fór Sassuolo upp í 8. sætið.

Birkir Bjarnason byrjaði leikinn fyrir Brescia í 3-1 tapi á útivelli gegn Torino. Staðan var 0-1 fyrir Brescia í hálfleik en Torino svaraði með þremur mörkum í seinni hálfleik. Birkir var tekinn út af á 61. mínútu í stöðunni 2-1 fyrir Torino.

Brescia er í næstneðsta sæti með 21 stig, sjö stigum frá öruggu sæti í deildinni. Torino siglir lygnan sjó í 14. sæti deildarinnar, sjö stigum frá fallsæti.

Atalanta heldur áfram sigurgöngu sinni og unnu í dag sinn níunda leik í röð í deildinni, 2-0 á móti Sampdoria. Mörk Atalanta skoruðu þeir Luis Muriel og Rafael Toloi. Atalanta er nú komið í 3. sæti, stigi fyrir ofan Inter sem á leik til góða.

Þá unnu Roma og Napoli mikilvæga sigra í Evrópudeildarbaráttunni en öll úrslit dagsins má sjá hér að neðan.

Öll úrslit dagsins í ítalska boltanum:

Genoa 1-2 Napoli

Atalanta 2-0 Sampdoria

Bologna 1-2 Sassuolo

Roma 2-1 Parma

Torino 3-1 Brescia

Fiorentina 0-0 Cagliari




Fleiri fréttir

Sjá meira


×