Innlent

Ást­ráður, Guð­björg og Gylfi skipa gerðar­dóm hjúkrunar­fræðinga

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ástráður Haraldsson er formaður gerðardómsins.
Ástráður Haraldsson er formaður gerðardómsins. ríkissáttasemjari

Ríkissáttasemjari hefur skipað gerðardóm í deilu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Dóminn skipa þau Ástráður Haraldsson, héraðsdómari og aðstoðarríkissáttasemjari sem jafnframt er formaður, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og doktor í sálfræði og Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og doktor í heilsuhagfræði.

Skipun gerðardómsins var hluti af miðlunartillögu ríkissáttasemjara sem var samþykkt af samningsaðilum 27. júní að lokinni atkvæðagreiðslu meðal hjúkrunarfræðinga. Miðlunartillagan fól í sér að hann skipi gerðardóm til að fjalla um afmörkuð atriði launaliðs sem ágreiningur er um. Gerðardómur skal ljúka störfum sínum fyrir 1. september 2020.

„Samningsaðilar náðu samkomulagi um öll meginatriði kjarasamnings utan afmarkaðra atriða launaliðs, þar á meðal um breytt vinnufyrirkomulag í dagvinnu og vaktavinnu. Ágreiningurinn á milli samningsaðila snýst um það hvort laun hjúkrunarfræðinga hjá stofnunum ríkisins séu í samræmi við ábyrgð, álag, menntun og inntak starfa þeirra samanborið við aðrar háskólamenntaðar stéttir hjá ríkinu,“ eins og það er útskýrt í orðsendingu frá embætti ríkissáttasemjara.

Þar er ennfremur tekið fram að hann starfi sjálfstætt og skuli við ákvarðanir sínar hafa hliðsjón af „kjörum og launaþróun þeirra starfsstétta sem sambærilegar geta talist í menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð og almennri þróun kjaramála hér á landi.“ Þannig þurfi gerðardómurinn að taka tillit til þeirra launahækkana sem hópurinn myndi fá eftir samþykkt miðlunartillögunnar „og eftir atvikum aðgerða sem stofnanir kunna að grípa til í kjölfar hans.“


Tengdar fréttir

Óvenjuleg lausn undir óvenjulegum kringumstæðum

Fyrirhuguðu verkfalli hjúkrunarfræðinga sem átti að hefjast í fyrramálið var afstýrt seint í kvöld þegar samkomulag náðist um miðlunartillögu sem Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari lagði fram til samninganefnda Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) og ríkisins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×