Innlent

Skírðu drenginn í höfuðið á þríeykinu

Sylvía Hall skrifar
Víðir Þór Almarsson virðist nokkuð sáttur með nafnið.
Víðir Þór Almarsson virðist nokkuð sáttur með nafnið. Aðsend/Vilhelm

Lítill drengur í Stykkishólmi fékk nafnið sitt um helgina. Það væri ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að drengurinn var skírður í höfðuð á þekktasta þríeyki landsins, þeim Ölmu Möller landlækni, Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni og Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni.

Drengurinn fékk nafnið Víðir Þór Almarsson og var skírður í gær. Hann kom í heiminn 21. maí og voru því síðustu vikur og mánuðir meðgöngunnar nokkuð litaðir af kórónuveirufaraldrinum og daglegum upplýsingafundum. 

Víðir, Þórólfur og Alma voru daglegir gestir á sjónvarpsskjám landsmanna síðustu vikurnar áður en Víðir Þór Almarsson kom í heiminn.Vísir/Vilhelm

Almar Þór Jónsson, faðir drengsins, segir nafnið upprunalega hafa komið upp sem grín eftir að hann og móðir Víðis, Kristín Vigdís, eyddu síðustu vikum meðgöngunnar í sóttkví.

„Ég sagði þetta í gríni við mömmu mína við kaffiborðið. Hún tók svo vel í þetta og svo fór okkur að lítast betur á þetta nafn þegar leið á. Það var svo erfitt að finna nafn og svo fannst okkur þetta bara fullkomið,“ segir Almar. Augljós líkindi eru með nafni Almars og Ölmu landlæknis og því var hægt að heiðra hvern einasta meðlim þríeykisins.

„Ég heiti náttúrulega Almar þannig við gátum gert þetta. Þá er líka alltaf einhver saga á bak við nafnið. Þetta er líka fínt nafn – þetta er ekkert ónefni.“

Hann segir nafnið fara Víði Þór vel og tóku ættingjar og vinir vel í nafnið þó það hafi uppskorið einhvern hlátur, enda þríeykið landsþekkt. Víðis-nafnið fari honum sérstaklega vel að sögn Almars.

„Hann er algjör Víðir. Traustvekjandi og flottur. Algjör sjarmör.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×