Fótbolti

Stuðningsmenn kusu Guðlaug besta leikmann tímabilsins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðlaugur Victor í leik með Darmstadt.
Guðlaugur Victor í leik með Darmstadt. Vísir/Getty

Guðlaugur Victor Pálsson, leikmaður Darmstadt í þýsku B-deildinni sem og íslenska landsliðsins, var í dag kjörinn besti leikmaður liðsins á nýafstaðinni leiktíð.

Liðið endaði í 5. sæti deildarinnar og rétt missti af sæti í umspilinu sem ákvarðar hvaða lið kemst upp í þýsku úrvalsdeildina. Á endanum munaði aðeins þremur stigum á Darmstadt og Heidenheim sem endaði í þriðja sæti deildarinnar. Stórlið Hamburger SV sat einnig eftir með sárt ennið í fjórða sætinu.

Guðlaugur Victor gekk í raðir Darmstadt í janúar 2019 og hefur fundið sig vel í herbúðum liðsins. Var hann lykilmaður hjá liðinu í vetur og byrjaði alls 31 af 34 leikjum þess í deildinni.

Þrátt fyrir að leika nær alltaf í hlutverki varnartengiliðs á miðjunni eða jafnvel í öftustu línu þá gerði Guðlaugur sér lítið fyrir og skoraði þrjú mörk ásamt því að leggja upp önnur fimm.

Guðlaugur hefur alls leikið 15 landsleiki fyrir A-landslið Íslands, þar af voru fjórir í undankeppni EM 2020. Hann var í byrjunarliði Íslands er það vann sigra gegn Moldavíu og Andorra, gerði markalaust jafntefli við Tyrki ytra og tapaði 0-1 gegn Frökkum á Laugardalsvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×