Innlent

Ungir karl­menn sem nauðga vin­konum sínum stærsti ger­enda­hópurinn

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Í yfir fjörtíu prósent nauðgunarmála sem koma á borð Stígamóta er gerandinn vinur eða kunningi botaþola.
Í yfir fjörtíu prósent nauðgunarmála sem koma á borð Stígamóta er gerandinn vinur eða kunningi botaþola. Vísir/vilhelm

Ungir karlmenn sem nauðga vinkonum sínum er stærsti gerendahópurinn hjá Stígamótum. Þeir leita sér sífellt oftar hjálpar hjá Stígamótum eftir að hafa brotið af sér og telur verkefnastýra að skoða eigi þörfina á sérstöku úrræði fyrir þá.

Samkvæmt nýrri ársskýrslu leituðu átta hundruð áttatíu og fimm til Stígamóta í fyrra. Þeim fjölgar um ríflega eitt hundrað milli ára. Á síðustu fimm árum hefur fjölgað um 43 prósent í hópnum.

„Stærsti hópurinn sem kemur til okkar eru ungar konur og lang flestir sem koma til okkar eru að leita aðstoðar vegna kynferðisofbeldis sem fólk var beitt í æsku. Þannig að 70 prósent af okkar fólki var beitt ofbeldi undir átján ára aldri," segir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, verkefnastýra hjá Stígamótum.

Um sjötíu prósent brotaþola höfðu orðið fyrir nauðgun og í sjötíu og fimm prósent tilfella var brotið framið í heimahúsi; á sameiginlegu heimili, heimili ofbeldismanns, hjá brotaþola eða hjá öðrum.

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, verkefnastýra hjá Stígamótum.Vísir/Egill

Stærsti hópur gerenda í nauðgunarmálum eru vinir eða kunningjar.

„Ef við skoðum þetta síðan í fyrra voru þetta 142 sem töldust vinir eða kunningjar sem nauðguðu. Þegar við skoðun aldurssamsetninguna á þeim er stærsti hópurinn á aldrinum 18-29 og næst stærsti á áldrinum 14-17 ára. Þannig þetta eru fyrst og fremst ungir karlar sem eru að nauðga vinkonum sínum," segir Steinunn.

Hún segir unga menn úr hópnum hafa í auknum mæli leitað til Stígamóta.

„Og eru að velta fyrir sér: „Nú hefur vinkona mín sagt mér að það sem gerðist í okkar samskiptum uppifði hún sem nauðgun. Hvað get ég gert til að leita mér aðstoðar, til að taka ábyrgð?" en þesi úrræði eru bara einfaldlega ekki til staðar," segir Steinunn

Stígamót vísa þeim frá þar sem úrræðið er einungis fyrir brotaþola. Hún telur hins vegar að skoða ætti þörfina fyrir sérstakt úrræði fyrir gerendur.

„Að ungir karlar geti leitað sér aðstoðar til að koma megi í veg fyrir frekara kynferðisofbeldi," segir Steinunn.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.