Erlent

Telja sig hafa fundið berstrípaðan kjarna gasrisa

Kjartan Kjartansson skrifar
Teikning listamanns af reikistjörnukjarnanum á braut um móðurstjörnu sína.
Teikning listamanns af reikistjörnukjarnanum á braut um móðurstjörnu sína. University of Warwick/Mark Garlick

Óvenjumassamikill berghnöttur sem stjörnufræðingar fundu þétt upp við móðurstjörnu sína virðist vera kjarni stórrar reikistjörnu á borð við gasrisann Júpíter. Slíkur kjarni hefur aldrei áður fundist og getur fundurinn hjálpað vísindamönnum að skilja betur innviði gasrisa.

Reikistjarnan, sem hefur fengið heitið TOI 849 b, fannst á braut um stjörnu sem líkist sólinni í um 730 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Sporbraut hennar er svo þétt utan um stjörnuna að árið þar er aðeins átján jarðneskar klukkustundir og hitinn við yfirborðið er talinn í kringum 1.500°C.

Í fyrstu töldu stjörnufræðingar að um tvístirni kynni að vera ræða, tvær sólstjörnur sem ganga hvor um aðra. Við nánari skoðun kom þó í ljós að hnötturinn var í raun gríðarlega massamikil reikistjarna. Þrátt fyrir að hnötturinn sé um þrisvar og hálfu sinni stærri en jörðin að þvermáli, um það bil jafnstór og Neptúnus, er hún um 39 sinnum massameiri.

Hópur stjörnufræðinga undir stjórn Davids Armstrong frá Warwick-háskóla á Englandi leitaði gagngert að berstrípuðum reikistjörnukjörnum í gögnum Tess-geimsjónaukans og TOI 849 b var einn af þeim kostum sem hann taldi vænlegastan.

Tiltölulega lítið er vitað um kjarna gasrisa eins og Júpíters. Talið er að undir þykkum lofthjúpnum sé hlutfallslega lítill kjarni fasts efnis. TOI 849 b er því einstakt tækifæri fyrir stjörnufræðinga að fræðast um hvernig reikistjörnur verða til, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Ekki er ljóst hvers vegna kjarninn stendur eftir ber. Annað hvort glataði reikistjarnan lofthjúpi sínum, mögulega við árekstur við aðra reikistjörnu eða vegna þyngdaráhrifa frá móðurstjörnunni, eða lofthjúpurinn náði aldrei að myndast. Það síðarnefnda gæti að hafa gerst af reikistjarnan myndaðist seint í frumbernsku sólkerfisins og efniviðurinn kláraðist.

„Hvernig sem á það er litið var TOI 849 b annað hvort gasrisi eða er „misheppnaður“ gasrisi,“ segir Armstrong.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.