Erlent

Bandaríkin tryggja sér stóran hluta framtíðarbirgða af Remdesivir

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Remdesivir þykir gagnlegt í baráttunni gegn Covid-19.
Remdesivir þykir gagnlegt í baráttunni gegn Covid-19. EPA/MOHAMED HOSSAM

Bandarísk yfirvöld hafa keypt upp nær alla framleiðslu bandaríska lyfjaframleiðandans Gilead á lyfinu Remdesivir næstu þrjá mánuðina, einu af aðeins tveimur lyfjum sem sýnt hefur verið fram á að gagnist í baráttunni gegn Covid-19.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneyti Bandaríkjanna sem birt var í gær en Guardian fjallar um málið á vef fjölmiðilsins í kvöld. Í tilkynningu ráðuneytisins segir að yfirvöld í Bandaríkjunum hafi keypt 100 prósent af áætlaðri framleiðslu Gilead á Remdesivir í júlí og 90 prósent af áætlaðri framleiðslu í ágúst og september. Alls er um að ræða rétt yfir 500 þúsund meðferðarskammta.

Í tilkynningunni segir að þar með sé sjúkrahúsum í Bandaríkjunum gert kleift að nálgast lyfið. Remdesivir er fyrsta lyfið sem hlaut meðmæli sérfræðinganefndar Lyfjastofnunar Evrópu til meðhöndlunar á Covid-19 og er það talið flýta bata þeirra sem þjást af Covid-19.

Bandaríska lyfjafyrirtækið Gilead hefur þó náð samkomulagi við ýmis lyfjafyrirtæki um að þau megi framleiða lyfið til dreifingar í 127 ríkjum heimsins sem falli undir ákveðin tekjuviðmið eða aðgangur að heilbrigðisþjónustu er af skornum skammti.

Í frétt Guardian er haft eftir Dr. Andrew Hill hjá Háskólanum í Liverpool að þar með sé nær ekkert eftir fyrir Evrópu en fyrstu 140 þúsund skammtarnir sem framleiddir voru voru sendir víðsvegar um heimin svo hægt væri að rannsaka virkni lyfsins, þeir skammtar eru nú uppurnir að því er fram kemur í frétt Guardian.

Kórónuveirufaraldurinn hefur leikið Bandaríkin grátt en þar hafa um 2,5 milljón tilfelli verið staðfest og um 130 þúsund látist af völdum Covid-19.


Tengdar fréttir

Til­rauna­lyf vekur vonir

Tveir af hverjum þremur sem veikst hafa alvarlega af völdum COVID-19 sýna batamerki eftir að hafa hlotið meðferð með tilraunalyfinu Rendesivir sem framleitt er af bandaríska lyfjafyrirtækinu Gilead.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.