Innlent

Segir nánast allt að sem við kemur malbikun

Andri Eysteinsson skrifar
Slysið varð á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi nærri Hvalfjarðargöngum.
Slysið varð á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi nærri Hvalfjarðargöngum. Vísir/Vilhelm

„Þegar maður horfir á þessi mál og sér hvernig aðrar þjóðir gera þetta þá bara erum við bara að sjá allt aðra afurð hér þegar við tölum um slitlag á vegum,“ segir Ólafur Guðmundsson umferðarsérfræðingur Bítisins á Bylgjunni í þættinum í morgun.

Mikið hefur verið rætt um malbik og aðstæður á vegum eftir að tveir létust í árekstri húsbíls og bifhjóls á Kjalarnesi á sunnudag. Bergþóra Þorkelsdóttir sagði í samtali við Vísi í gær að fyrsta mat bendi til þess að yfirlögn á vegarkaflanum þar sem banaslysið varð hafi ekki samræmst útboðsskilmálum. Talið er að malbikið, sem var nýlagt, hafi verið hálla en við verður unað.

„Það er eiginlega allt sem er að. Við notum íslenskt berg en ekki innflutt kvars. Ég heyrði það líka að við notum innflutt bik, við notuðum bik sem væri þægilegt að nota en hentaði ekki okkar hitastigi og heimshluta. Við malbikum of þunnt, við notum ekki einangraða vagna við flutning og hitinn er ekki passaður,“ sagði Ólafur og bætti við að það sé býsna margt sem hægt sé að laga.

„Þegar það er of mikið bik, þá kreistist það upp úr og verður eins og spegill ofan á og er flughált. Það jafnar sig yfirleitt þegar slitnar upp úr en á meðan það er spegilmyndun á því. Þegar það blotnar þá verður þetta eins og ís og þetta er sama aðferð og er notuð til að búa til hálkubrautir í ökuskólum,“ segir Ólafur í Bítinu.

„Menn eiga að geta vaktað þetta betur. Þetta blasir við og gargar á mann,“ sagði Ólafur sem var um árabil stjórnarmaður í Félagi íslenskra bifreiðaeigenda og er varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Ólafur bætti við að ef speglun sé komin upp þurfi að vara fólk við.

Vegagerðin hefur tilkynnt að nýtt malbik verði lagt yfir kaflann á Kjalarnesi þar sem malbik stenst ekki staðla og útboðsskilmála um viðnám en þar varð banaslysið um liðna helgi.

Ólafur Guðmundsson, umferðarsérfræðingur.

„Það ræðst bara af ytri aðstæðum. Það verður farið í það um leið. Það er spáð einhverri rigningu í dag og það gæti verið einhver þáttur í þessu. Við erum ekki að bíða eftir neinu nema því að allt verði klárt,“ sagði G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar í samtali við Vísi inntur eftir því hvenær malbikun hefjist á kaflanum sem um ræðir.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.