Erlent

Belgíu­­konungur harmar ný­­lendu­­tíma landsins

Atli Ísleifsson skrifar
Belgíska Kongó var persónuleg nýlenda Leopolds II Belgíukonungs, sem var við völd frá 1865 til 1909. Skemmdir hafa verið unnar á styttum af honum síðustu daga.
Belgíska Kongó var persónuleg nýlenda Leopolds II Belgíukonungs, sem var við völd frá 1865 til 1909. Skemmdir hafa verið unnar á styttum af honum síðustu daga. EPA

Filippus Belgíukonungur hefur sagst harma nýlendutíma ríkisins sem hann segir „valda sársauka enn þann dag í dag“. Þetta kemur fram í bréfi Belgíukonungs til Felix Tshisekedi, forseta Lýðveldisins Kongó.

Þetta er í fyrsta sinn sem Belgar segjast harma nýlendutíma sinn og framgöngu sinni í Lýðveldinu Kongó sínum með þessum hætti.

Landið var belgísk nýlenda á árunum 1884 til 1960. Skömmu eftir að landið öðlaðist sjálfstæði tók það upp nafnið Zaire, en 1997 var tekið upp nafnið Lýðveldið Kongó. Landið gengur einnig undir nafninu Austur-Kongó.

Belgíska Kongó var persónuleg nýlenda Leopolds II Belgíukonungs sem var við völd frá 1865 til 1909. Leopold II arðrændi þjóðina, bæði með sölu fílabeina og svo vinnslu gúmmís, og er áætlað að margar milljónir íbúa hafi dáið af völdum vannæringar, illrar meðferðar og vanstjórnar. Urðu fræg orð Leopolds á Berlínarráðstefnunni 1884, þar sem verið var að leggja línurnar að nýlendutímabili Evrópuþjóða, að hann vildi „væna sneið af Afríkukökunni“.

„Ég vil koma á framfæri afsökun vegna sára fortíðar, sem valda sársauka enn þann dag í dag vegna þeirrar mismununar sem enn er að finna í samfélaginu,“ skrifaði Filippus í bréfinu til Tshisekedi í tilefni af því að sextíu ár eru nú liðin frá sjálfstæði landsins.

Skemmdir hafa verið unnar á styttum af Leopold II í Belgíu síðustu vikurnar í kjölfar þeirra mótmæla sem hafa blossað upp vegna dauða George Floyd í Bandaríkjunum. Með mótmælunum, sem breiðst hafa út víða um heim, hefur sjónum verið beint að rasisma og lögregluofbeldi.

Íbúar Lýðveldisins Kongó eru um 84 milljónir og er það fjórða fjölmennasta land Afríku.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×