Innlent

Sturla liðsinnir framboði Guðmundar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Guðmundur Franklín nýtur liðsinnis Sturlu, sem bauð sig fram til forseta árið 2016.
Guðmundur Franklín nýtur liðsinnis Sturlu, sem bauð sig fram til forseta árið 2016. Vísir/Vilhelm

Sturla Jónsson, vörubílstjóri og stjórnmálamaður, er á meðal umboðsmanna forsetaframboðs Guðmundar Franklíns Jónssonar, sem býður sig fram gegn Guðna Th. Jóhannessyni, sitjandi forseta.

Guðmundur Franklín birti mynd á Facebook-síðu sinni, þar sem Sturlu er meðal annarra að sjá.

„Hér eru umboðsmenn mínir á fundum í dag í Ráðhúsinu með kjörstjórn Reykjavíkur. Við auglýsum hér með eftir fólki sem vill og getur hjálpað okkur á kjördag,“ skrifar Guðmundur með myndinni. Á myndinni má einnig sjá Gunnlaug Ingvarsson, formann Frelsisflokksins, Önnu Maríu Sig­urðardótt­ur og Árna Frank­lín Guðmunds­son, son Guðmundar.

Sturla Jónsson hefur alls fjórum sinnum farið í framboð hér á landi. Þrisvar til Alþingis og einu sinni til embættis forseta lýðveldisins.

Árið 2009 bauð Sturla sig fram sem oddviti Frjálslynda flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður. Fékk flokkurinn 700 atkvæði í kjördæminu og náði ekki manni á þing.

Sturla gerði aðra atlögu að sæti á Alþingi árið 2013, þá undir merkjum síns eigin flokks, sem bar einfaldlega heitið framboð Sturlu Jónssonar. Aftur bauð hann fram í Reykjavíkurkjördæmi suður, en framboðið hlaut 222 atkvæði í kjördæminu og náði ekki inn á þing.

Árið 2016 var Sturla einn níu frambjóðenda sem var á kjörseðlinum í forsetakosningunum, 25. júní 2016. Fór svo að Sturla hlaut 6.446 atkvæði, eða 3,5% og var sá fimmti atkvæðamesti í forsetakjörinu. Guðni Th. Jóhannesson sigraði kosningarnar með 39,1% atkvæða.

Sturla var síðast í framboði síðar sama ár, þá til Alþingis. Hann bauð sig fram sem oddviti Dögunar í Suðurkjördæmi. Flokkurinn hlaut 611 atkvæði í kjördæminu, og náði ekki manni á þing.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×