Innlent

Ekki spenntur fyrir komu Banda­ríkja­manna

Sylvía Hall skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Ekki liggur fyrir hvernig opnun ytri landamæra Schengen-svæðisins verður háttað en þó er stefnt að sameiginlegri framkvæmd ríkjanna í þeim efnum. Stefnt er að því að ljúka þeirri vinnu um mánaðamót og að listi um ríki sem mega ferðast til svæðisins liggi þá fyrir.

Greint var frá því á Vísi fyrr í dag að Bandaríkjamenn verði ólíklega á þeim lista. Drög að tveimur listum sem New York Times hefur undir höndum sýna að Bandaríkin eru á hvorugum lista og er ástæðan sögð vera hversu illa gengur að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar þar.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir virðist vera á sama máli. Á upplýsingafundi almannavarna í dag sagðist hann ekki vera hrifinn af þeirri hugmynd að fá beint flug frá Bandaríkjunum hingað til lands og að menn væru almennt uggandi yfir því. Þá væri nauðsynlegt að standa vel að skimun ef svo færi.

Rúmlega vika er liðinn frá því að skimun á landamærunum hófst og hafa tvö virk smit greinst við slíka skimun. Fleiri hafa greinst með gamalt smit og eru því ekki smitandi, þ.e. að leifar af veirunni finnast enn í nefkoki einstaklings en viðkomandi er þá með mótefni.

Þórólfur sagði jákvætt hversu fá smit hafa greinst en þó væri of stuttur tími liðinn til þess að draga ályktanir. Hann leggur því til að skimun haldi áfram í það minnsta út júlí, enda skipti miklu máli að meta áhættuna og gögnin séu hjálpleg í því samhengi.


Tengdar fréttir

Vill að skimað verði út júlí hið minnsta

Aðeins tveir ferðamenn af þeim um það bil átta þúsund sem farið hafa í skimun vegna kórónuveirunnar á landamærum Íslands hafa reynst með virkt smit. Sóttvarnarlæknir vill að skimað verði áfram út næsta mánuð hið minnsta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×