Innlent

Vill að skimað verði út júlí hið minnsta

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá fundi dagsins.
Frá fundi dagsins. Vísir/Friðrik Þór

Aðeins tveir ferðamenn af þeim um það bil átta þúsund sem farið hafa í skimun vegna kórónuveirunnar á landamærum Íslands hafa reynst með virkt smit. Sóttvarnarlæknir vill að skimað verði áfram út næsta mánuð hið minnsta.

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnason sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna í dag. Í máli hans kom fram að af þeim tíu þúsund farþegum sem komið hafa hingað til lands frá því að skimanir hófust þann 15. júní síðastliðinn hafi um 7.800 sýni verið tekin.

Þrettán hafa greinst með veiruna en af þeim hafa aðeins tveir reynst með virkt smit. Þetta væri gott hlutfall en áfram þyrfti að skima.

„Ég held að núverandi fyrirkomulag gefi okkur mjög góða innsýn í hvernig smithættu er háttað af ferðamönnum hér á landi og ég mun mælast til þess við ráðherra að skimanir á landamærum muni halda áfram næstu vikurnar, hið minnsta út júlímánuð,“ sagði Þórólfur.

Hugsanlega væri hægt að breyta um áherslur síðar meir og minnka kröfur til ferðamanna frá ákveðnum löndum, en það væri ekki tímabært.

„Ég held að það sé nauðsynlegt að fá lengri tíma til að meta þessa áhættu og sjá betur í hverju áhættan er fólgin.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×