Fótbolti

Þrjátíu milljónir í nýja velli, búningsklefa og bætta aðstöðu - Breiðablik hlaut mest

Sindri Sverrisson skrifar
Breiðablik hóf að spila heimaleiki sína á nýjum gervigrasvelli í fyrrasumar.
Breiðablik hóf að spila heimaleiki sína á nýjum gervigrasvelli í fyrrasumar. VÍSIR/DANÍEL

Knattspyrnusamband Íslands hefur úthlutað tæplega þrjátíu milljónum króna til aðildarfélaga sinna vegna ýmiss konar framkvæmda. Breiðablik fær mest í sinn hlut eða 7.350.000 krónur.

Breiðablik fær sína upphæð meðal annars vegna framkvæmda við gervigrasið á Kópavogsvelli, sem lagt var í fyrra, en 2,5 milljónir eru ætlaðar upp í kostnað við hitalagnir og vökvunarkerfi. Styrkur vegna flóðlýsingar við völlinn nemur 1,75 milljón króna en heildarlista yfir styrki og ástæður þeirra má sjá hér.

FH fékk næsthæsta upphæð eða 5,25 milljónir króna en sá styrkur er að stærstum hluta tilkominn vegna framkvæmda við hið nýja knatthús Skessuna sem opnuð var á 90 ára afmæli félagsins í október síðastliðnum. Eyjamenn fengu 4,25 milljónir vegna nýrra búningsklefa á Hásteinsvelli, og nýliðarnir í Pepsi Max-deild karla, Gróttumenn, fengu 2,5 milljón til að stækka stúkuna og skapa betri aðstöðu á Vivaldi-vellinum. Leiknir F. fékk 2,5 milljón til að endurnýja gervigrasið í Fjarðarbyggðarhöll.

Það er mannvirkjanefnd KSÍ sem gerir tillögu að úthlutun úr mannvirkjasjóði sambandsins og stjórn KSÍ tekur svo lokaákvörðun um úthlutunina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×