Innlent

57 starfsmenn SÁÁ vilja ekki Þórarin aftur og lýsa yfir stuðningi við Einar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sjúkrahúsið Vogur
Sjúkrahúsið Vogur Vísir/Sigurjón

57 starfsmenn meðferðarsviðs SÁÁ hafa sent fjölmiðlum yfirlýsingu þar sem þeir lýsa yfir stuðningi við Einar Hermansson í formannskjöri SÁÁ sem haldið verður 30. júní. Starfsmennirnir vilja ekki að Þórarinn Tyrfingsson verði kjörinn.

Einar og Þórarinn eru í formannskjöri en nokkur ólga hefur verið í starfi samtakanna á Vogi undanfarna mánuði, ekki síst eftir að Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri Vogs og framkvæmdastjóri lækninga, sagði upp til að mótmæla því að öllum sálfræðingum og lýðheilsufræðingi hefði verið sagt upp við stofnunina án samráðs við hana. Hún dró uppsögn sína þó til baka og í framhaldinu voru hinar uppsagnirnar dregnar til baka

Þá hefur einnig verið fjallað um fjárhagsvandræði SÁÁ, ekki síst vegna kórónuveirufaraldursins en SÁÁ hefur líkt og aðrir fundið fyrir tekjusamdrættu að undanförnu. Starfsmennirnir 57 segja þó að vandi SÁÁ snúist ekki um peninga heldur „um yfirgengilegt ofbeldi í samskiptum, vanvirðingu, undirróður og valdabaráttu manna sem geta ekki sleppt tökunum á gömlum tímum.“

Í yfirlýsingunni lýsa starfsmennirnir 57 yfir stuðningi við Einar í formannsstólinn og segja að nýir tímar hafi hafist í starfi SÁÁ á Vogi þegar Þórarinn Tyrfingsson lét af starfi forstjóra Vogs. Starfsmennirnir vilji því ekki sjá Þórarinn í embætti formanns SÁÁ, enda hafi að þeirra mati orðið jákvæðar breytingar á starfi Vogs eftir að Valgerður tók við af Þórarni.

„Við starfsfólk meðferðarsviðs SÁÁ viljum ekki Þórarinn Tyrfingsson sem formann SÁÁ. Okkur þarf ekki að bjarga, starfsandinn er almennt góður og það eitt að fyrrverandi formaður haldi öðru fram er dæmigert fyrir hans stjórnunarstíl, viðhorf og sjónarmið,“ segir í yfirlýsingunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×