Enski boltinn

Telja Gylfa eiga að vera á bekknum gegn Liverpool

Sindri Sverrisson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson hefur átt fast sæti í liði Everton undir stjórn Ítalans virta Carlo Ancelotti.
Gylfi Þór Sigurðsson hefur átt fast sæti í liði Everton undir stjórn Ítalans virta Carlo Ancelotti. VÍSIR/GETTY

Everton og Liverpool snúa aftur til keppni í dag eftir hlé frá því í mars vegna kórónuveirufaraldursins, þegar liðin mætast í borgarslag í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Gylfi Þór Sigurðsson hefur átt fast sæti í byrjunarliði Everton undir stjórn Carlo Ancelotti en að mati blaðamanna staðarmiðilsins Liverpool Echo ætti Gylfi að vera á varamannabekknum í dag. Miðillinn fékk þrjá blaðamenn sína til að velja byrjunarlið og telja þeir allir að André Gomes og Tom Davies eigi að vera á miðjunni hjá Everton, og að ekki sé pláss fyrir Gylfa í liðinu. Miðlar á borð við The Independent og Express spá því hins vegar að Ancelotti treysti áfram á Gylfa í byrjunarliðinu.

Tveir aðrir miðjumenn, Fabian Delph og Jean-Philippe Gbamin, eiga við meiðsli að stríða, sem og miðvörðurinn Yerry Mina og kantmaðurinn Theo Walcott. Delph og Mina eru þó nálægt því að komast af stað og gætu hugsanlega spilað í dag.

Hjá Liverpool ætti Jürgen Klopp að geta stillt upp sínu sterkasta liði, þó að einhver óvissa hafi ríkt um Mohamed Salah sem á að hafa misst af æfingu á miðvikudag.

Everton fékk eitt stig úr síðustu þremur leikjum sínum fyrir hléið, gegn Arsenal, Manchester United og Chelsea. Liðið er í 12. sæti og þarf mikið að gerast til að það blandi sér í baráttuna um Evrópusæti. Liverpool þarf aðeins tvo sigra í viðbót til að tryggja sér Englandsmeistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×