Erlent

Einum lög­reglu­þjónanna sem urðu Breonnu Taylor að bana vikið úr starfi

Andri Eysteinsson skrifar
M'otmælahreyfingar hafa haldið nafni Taylor á lofti og krafist réttlætis.
M'otmælahreyfingar hafa haldið nafni Taylor á lofti og krafist réttlætis. Vísir/AP

Lögreglumanni sem var einn þeirra sem varð hinni 26 ára gömlu Breonnu Taylor að bana í mars síðastliðnum hefur verið rekinn úr starfi sínu hjá lögreglunni í Louisville í Kentucky.

13. mars síðastliðinn ruddust lögreglumenn inn í íbúð Taylor þar sem hún lá sofandi. Var hún skotin átta sinnum en lögreglumennirnir unnu að rannsókn fíkniefnamáls. Engin fíkniefni fundust á heimili Taylor sem starfaði sem sjúkraliði.

Greg Fischer, borgarstjóri Louisville, sagði í samtali við AP að lögreglustjórinn í Louisville, Robert Schroeder hefði vikið lögreglumanninum Brett Hankison úr starfi. Tveir aðrir lögreglumenn sem komu að málinu hafa verið færðir til í starfi á meðan unnið er að rannsókn.

Í bréfi sem lögreglustjórinn sendi á Hankison vegna brottrekstursins kom fram að með því að hleypa af skotvopni sínum tíu sinnum, blint, inn í íbúð Taylor hafi hann gerst brotlegur við verklagsreglur lögreglunnar.

Hann hafi skotið af byssunni án þess að afla nægra upplýsinga um hvað væri að finna fyrir framan hann.

„Í rauninni þá voru skotunum tíu sem þú hleyptir af skotið í átt að hurð og glugga sem var hulinn þannig efni að þú hefðir engan veginn geta séð hvort að hætta stafaði af einhverjum eða hvort um saklausan borgara var að ræða,“ sagði í bréfi Schroeder til Hankison. „Hegðun þín er þér og lögreglunni til skammar.“

Lögfræðingur fjölskyldu Taylor, Sam Aguilar, sagði tíma til kominn .

„Mikið var, þetta hefði átt að ske fyrir margt löngu en að minnsta kosti er þetta ljóst núna,“ sagði Aguiar. „Þessi lögregluþjónn hefur herjað á götur borgarinnar, og gert borgina að verri stað, í yfir tólf ár. Við skulum vona að þetta verði til þess að réttað verði hressilega yfir Hankison því hann á skilið, hið minnsta, að verða ákærður.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×