Innlent

Ummæli Boga í Mannlífi komu Flugfreyjufélaginu á óvart

Andri Eysteinsson skrifar
Fundi milli FFÍ og Icelandair lauk á áttunda tímanum í kvöld.
Fundi milli FFÍ og Icelandair lauk á áttunda tímanum í kvöld. Samsett/ Vísir/Vilhelm/Mannlíf

Fundi milli samninganefnda Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair lauk nú klukkan 19:30 án niðurstöðu. Umræður á fundinum voru góðar að sögn formanns FFÍ sem sagði einnig að ummæli forstjóra Icelandair í dag hafi komið á óvart.

„Góðar umræður og næsti fundur boðaður á mánudaginn,“ sagði Guðlaug Líney Jóhannsdóttir formaður Flugfreyjufélagsins í samtali við Vísi í kvöld.

Guðlaug sagði að næsti fundur sé á dagskrá klukkan 9:30 næsta mánudag.

Lítið hefur gerst í viðræðum Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair frá því Flugfreyjufélagið hafnaði svokölluðu lokatilboði flugfélagsins 20. maí síðastliðinn. Tvær vikur eru síðan samningsaðilar funduðu síðast hjá ríkissáttasemjara en sá fundur var árangurslaus.

Kjaradeilan hefur staðið yfir á milli félagsins og Icelandair í nokkurn tíma en í viðtali við Mannlíf sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair að ef ekki tækist að finna samningsflöt milli deiluaðila á fundinum í dag væri tilgangslaust að halda viðræðunum áfram.

„Við erum bara í því verkefni að bjarga þessu fyrirtæki, takist ekki að semja núna setjum við það á fullt að fara aðrar leiðir,“ sagði Bogi Nils í Mannlífi í dag.

„Við vorum búin að óska eftir yfirlýsingu frá honum á sínum tíma um að ekki væri farið að leita annarra leiða varðandi okkur og þetta kemur á óvart. Við erum að kanna málið okkar megin en á meðan erum við með allan okkar fókus á þessari kjaradeilu,“ sagði Guðlaug Líney Jóhannsdóttir formaður Flugfreyjufélags Íslands í samtali við Vísi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×