Innlent

Kjara­deila flug­freyja: „Alltaf von þegar fólk talar saman“

Atli Ísleifsson skrifar
Guðlaug Líney Jóhannsdóttir er starfandi formaður Flugfreyjufélags Íslands.
Guðlaug Líney Jóhannsdóttir er starfandi formaður Flugfreyjufélags Íslands. Vísir/Vilhelm

Samninganefndir Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair koma saman til fundar hjá ríkissáttasemjara klukkan tvö í dag. Ekkert hefur verið fundað á milli aðila í tvær vikur.

Lítið hefur gerst í viðræðum Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair frá því Flugfreyjufélagið hafnaði svokölluðu lokatilboði flugfélagsins 20. maí síðastliðinn. Tvær vikur eru síðan samningsaðilar funduðu hjá ríkissáttasemjara en sá fundur var árángurslaus.

Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, segist bjartsýn fyrir fundinn í dag. „Aðilar hittast hjá sáttasemjara í fyrsta skipti síðan 5. júní. Ríkissáttasemjari boðaði til lögboðins fundar núna í dag.“

Hverju áttu von á í viðræðunum í dag?

„Ég á allavega von á samtali og það er nú alltaf von þegar fólk talar saman þannig að ég fer bjartsýn inn í daginn.“

Engar óformlegar viðræður hafa átt sér stað á milli aðila frá síðasta fundi.

„Samninganefndin okkar hefur verið dugleg að hittast og hitta félagsmenn á opnum húsum og við erum að reyna leita allra leiða sem við sjáum að hægt væri að fara,“ segir Guðlaug Líney.

Hún segir marga hluti í viðræðunum óleysta. „Í stuttu málið er þetta aukið vinnuframlag og kannski breyting á starfsöryggi stéttarinnar til framtíðar sem er það sem við erum helst ósátt um.“

Líkt og áður hefur komið fram eru ferðamenn farnir að koma til landsins aftur eftir tilslakanir á landamærum Íslands. Icelandair áætlar að auka flugframboð sitt í júlí gangi allt eftir.

Guðlaug segir Flugfreyjufélagið sem stendur ekki vera íhuga aðgerðir. „Ekki að svo stöddu,“ sagði Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×