Fótbolti

Þarf að borga Barcelona milljarð til baka

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Neymar, sem fær hér að lýta rauða spjaldið í leik í febrúar, þarf að borga Barcelona yfir milljarð íslenskra króna.
Neymar, sem fær hér að lýta rauða spjaldið í leik í febrúar, þarf að borga Barcelona yfir milljarð íslenskra króna. EPA-EFE/JULIEN DE ROSA

Brasilíska stórstjarnan Neymar þarf að borga fyrrum félagi sínu Barcelona til baka sex milljónir punda eða rúman milljarð íslenskra króna. Leikmaðurinn leikur í dag með stórliði Paris Saint-Germain í Frakklandi.

Dómstóll á Spáni komst að þessari niðurstöðu en breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá.

Neymar fór frá Barcelona til Parísar sumarið 2017. Eftir félagaskiptin sagði hann að spænska stórveldið skuldaði sér 39 milljónir punda vegna vangoldinna bónusgreiðsla. Er það vel yfir sex og hálfan milljarð íslenskra króna.

Í kjölfarið fór Neymar með málið fyrir dóm sem hefur nú dæmt í málinu. Hann getur þó áfrýjað þeirri ákvörðun.

„Barcelona fagnar ákvörðun réttarins og mun halda áfram að verja lagaleg réttindi sín,“ segir í yfirlýsingu frá félaginu.

Hinn 28 ára gamli Neymar kvartaði upprunalega til alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, í kjölfar félagaskipta sinna til Parísar en FIFA ákvað að láta dómstóla á Spáni alfarið um málið.

Barcelona neitaði ekki aðeins að borga Neymar fyrir bónusgreiðslurnar sem hann taldi sig eiga inni heldur ákvað félagið að fara í mál við hann vegna þeirra átta milljóna punda sem Brassinn fékk við undirritun nýs samnings suumarið 2016. 

Svo virðist sem Neymar þurfi nú að borga hluta af þeirri upphæð til baka.

Orðrómar hafa verið uppi um mögulega endurkomu Neymar til Barcelona en eftir þessar fréttir verður að teljast ólíklegt að stórstjarnan spili aftur við hlið Lionel Messi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×